Fimm ítölsk lið í Meistaradeildinni

Roma er komið í undanúrslit Evrópudeildarinnar.
Roma er komið í undanúrslit Evrópudeildarinnar. AFP/Filippo Monteforte

Fimm ítölsk lið leika í Meistaradeild Evrópu í fótbolta á næsta tímabili, í stað fjögurra, vegna góðs árangurs ítalska liða í Evrópukeppnum UEFA á leiktíðinni. Tvær deildir fá aukasæti í Meistaradeildinni á næstu leiktíð, þegar liðum verður fjölgað í 36.

Ítalía og England voru í harðri baráttu um fyrsta aukasætið, en þar sem fjögur af þeim fimm ensku liðum sem voru eftir í Evrópukeppnum féllu úr leik í átta liða úrslitum í vikunni, varð ljóst að Ítalía var örugg með annað aukasætanna.  

Aston Villa er eina enska liðið sem komst í undanúrslit í Evrópukeppni, en liðið vann Lille frá Frakklandi og komst í undanúrslit Sambandsdeildarinnar. Ítölsku liðin Roma og Atalanta eru komin í undanúrslit Evrópudeildarinnar og Fiorentina í undanúrslit Sambandsdeildarinnar.

Arsenal, Manchester City, Liverpool og West Ham féllu öll úr leik í Evrópukeppnum í vikunni. Þrátt fyrir það er England í góðri stöðu með að ná seinna aukasætinu, en franska 1. deildin getur enn farið upp fyrir ensku úrvalsdeildina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert