„Krakkavitleysingar sem hafa aldrei mætt á leik“

Stuðningsmenn Grindavíkur í leiknum í Smáranum í kvöld.
Stuðningsmenn Grindavíkur í leiknum í Smáranum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Valur Orri Valsson, leikmaður Grindavíkur, var að vonum ánægður með sigurinn á sínum gömlu félögum í Keflavík í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik í Smáranum í Kópavogi í kvöld.

„Í fyrri hálfleik var mikið skorað. Hann var allavega daufur af okkar hálfu. Remy [Martin] var að skora allt of auðveldlega. Það var kannski planið að leyfa honum að skora og taka aðra út úr leiknum, en ekki alveg svona auðveldlega.

Það gekk ágætlega nema hann var að skora allt of auðveldlega. Færslurnar í vörninni voru út úr kortinu miðað við það sem við ætluðum að gera.

Það var haustbragur á þessu. 11 dagar frá síðasta leik og við þurftum að koma okkur í einhvern gír. Við náðum því aðeins í seinni hálfleik,“ sagði Valur Orri í samtali við mbl.is eftir leik.

Vörnin í fjórða leikhluta skóp sigurinn

Eftir afskaplega jafnan leik tókst Grindvíkingum að sigla fram úr undir lokin og hafa átta stiga sigur, 102:94.

Hvað skildi á milli liðanna í kvöld?

„Mér fannst vörnin, sérstaklega í fjórða leikhluta, frekar góð. Við náðum að halda þeim aðallega fyrir utan þriggja stiga línuna. Ekki það að þeir hittu frekar vel þar líka en við hefðum mátt gera betur í varnarfráköstum.

Við fengum oft tvö möguleika til þess, sem brenndi okkur, en heilt yfir held ég að það hafi verið vörnin í fjórða sem skóp þetta,“ útskýrði hann.

Ekki alveg sama liðið

Valur Orri gekk til liðs við Grindavík frá Keflavík fyrir yfirstandandi tímabil. Alls lék hann í átta tímabil með liðinu. En hvernig er það fyrir Val Orra að mæta sínum gömlu félögum?

„Það er bara gaman. Ég var ekki með nema þremur mönnum sem eru að spila í liðinu þannig að þetta er kannski ekki alveg sama liðið og ég var með.

Það voru einhverjir krakkavitleysingar sem hafa aldrei áður mætt á leik uppi í stúku að öskra eitthvað á mann. Það er helvíti gaman að því. Þetta var bara skemmtilegt,“ sagði hann í léttum tón.

Valur Orri Valsson í treyju Keflavíkur.
Valur Orri Valsson í treyju Keflavíkur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þurfum að bæta okkur

Liðin mætast næst í Keflavík á laugardagskvöld.

„Ég er spenntur. Við þurfum að bæta okkar leik ef við ætlum að vinna næsta leik. Við megum vera ánægðir með að vinna í kvöld og svo er það bara „back to business“ á morgun,“ sagði Valur Orri að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert