Boston áfram - Doncic góður í stórsigri Dallas

Luka Doncic fer framhjá P.J. Tucker í leik Dallas og …
Luka Doncic fer framhjá P.J. Tucker í leik Dallas og Clippers í nótt. AFP/Ronald Martinez

Boston Celtic sendi Miami Heat í sumarfrí í nótt og Luka Doncic átti enn einn stórleikinn þegar Dallas Mavericks kom sér í kjörstöðu gegn Los Angeles Clippers með glæsilegum útisigri í úrslitakeppni NBA-körfuboltans.

Doncic skoraði 35 stig, átti 10 stoðsendingar og tók 7 fráköst í leiknum í Los Angeles en Dallas vann þar þrjátíu stiga sigur, 123:93, og er með forystu í einvíginu, 3:2, fyrir sjötta leikinn sem fer fram í Dallas.

Þetta er í tuttugasta skipti sem Slóveninn snjalli skorar 30 stig eða meira í leik í úrslitakeppni NBA en hann er aðeins fimmti leikmaðurinn í sögunni sem nær því 25 ára gamall eða yngri.

Maxi Kleber skoraði 15 stig fyrir Dallas, Kyrie Irving og Jaden Hardy 14 hvor, en hjá Clippers voru Paul George og Ivica Zubac atkvæðamestir með 15 stig hvor.

Boston vann mjög öruggan sigur á Miami á heimavelli, 118:84, og vann einvígið 4:1. Liðið mætir Cleveland eða Orlando í undanúrslitum Austurdeildarinnar.

Derrick White og Jaylen Brown skoruðu 25 stig hvor fyrir Boston og Jayson Tatum var með 16 stig og 12 fráköst. Bam Adebayo skoraði 23 stig fyrir Miami.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert