Hádramatík í Cleveland

Evan Mobley bjargar Cleveland á ögurstundu.
Evan Mobley bjargar Cleveland á ögurstundu. AFP/Jason Miller

Cleveland Cavaliers vann dramatískan eins stigs sigur á Orlando Magic, 104:103, í úrslitakeppni bandarísku NBA-deildarinnar í körfubolta karla í Cleveland í nótt. 

Er Cleveland-liðið því komið yfir í einvíginu, 3:2, en fjóra sigra þarf til að tryggja sér sæti í undanúrslitum austurdeildarinnar. 

Orlando átti síðustu sókn leiksins. Orlando-maðurinn Franz Wagner keyrði að körfunni en Cleveland-maðurinn Evan Mobley kom í veg fyrir að boltinn fór ofan í með frábærum varnarleik. 

Þrátt fyrir tapið átti Paolo Banchero frábæran leik fyrir Orlando en hann skoraði 39 stig, tók átta fráköst og gaf fjórar stoðsendingar. Donovan Mitchell skoraði 28 stig fyrir Cleveland. 

Milwaukee minnti á sig

Milwaukee Bucks er ekki búið að segja sitt síðasta en liðið vann heimasigur gegn Indiana Pacers, 115:92, í Milwaukee í nótt. 

Staðan er 3:2 fyrir Indiana Pacers en Milwaukee hefur verið án Giannis Antetokounmpo og Damian Lillard í undanförnum leikjum. 

Khris Middleton steig upp í þeirra fjarveru en hann skoraði 29 stig, tók tólf fráköst og gaf fimm stoðsendingar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert