Undirbúum okkur fyrir það versta

Pétur Ingvarsson, þjálfari Keflavíkur.
Pétur Ingvarsson, þjálfari Keflavíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta var jafnt og þróaðist ekki eins og við vildum,“ sagði Pétur Ingvarsson, þjálfari Keflavíkur, eftir tap fyrir Grindavík í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik í Smáranum í Kópavogi í kvöld.

„Við ætluðum að reyna að vera með okkar fullskipaða lið allan leikinn en menn voru ekkert að gefast upp. Við gáfum þeim alveg leik allt fram undir lokin,“ hélt hann áfram í samtali við mbl.is eftir leikinn.

Eftir hnífjafnan leik lengst af tókst Grindavík að sigla fram úr undir lokin og vinna átta stiga sigur, 102:94.

„[Dedrick] Basile komst á körfuna, við náðum ekki að stöðva hann og náðum ekki að skora á móti. Hann er mjög öflugur og þegar okkur vantar Remy [Martin] til þess að spila vörn á hann þá er þetta pínu erfitt,“ sagði Pétur um lokakaflann.

Tjáum okkur ekki út í loftið

Remy Martin fór meiddur af velli um miðjan annan leikhluta og hertist þá róður Keflvíkinga. Er Pétur var spurður hvað hafi komið fyrir Bandaríkjamanninn hæfileikaríka sagði hann:

 „Ég veit það ekki, ég sá bara það sama og þú. Við höldum að þetta sé einhvers konar kálfatognun eða eitthvað tengt hásininni. Við skulum sjá hvað kemur frá lækni áður en við förum að tjá okkur eitthvað út í loftið.“

Remy Martin er liði Keflavíkur afskaplega mikilvægur.
Remy Martin er liði Keflavíkur afskaplega mikilvægur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ólíklegt að Martin verði með í næsta leik

Keflavík reiðir sig mikið á Martin í sóknarleiknum sem endurspeglaðist í því að hann var stigahæstur gestanna með 18 stig þrátt fyrir einungis 11 spilaðar mínútur.

„Að sjálfsögðu reiðum við okkur á hann. Við vonum það besta og undirbúum okkur fyrir það versta. Mér finnst mjög ólíklegt að hann verði með í næsta leik þannig að það þarf að undirbúa leikinn á þann veg að við séum án hans.“

Spila öðruvísi vörn

Liðin mætast næst í Keflavík á laugardagskvöld.

Hvernig verður undirbúningnum háttað fyrir hann?

„Við erum núna með gögn úr þessum leik sem taka fyrir hvernig þeir spila vörn á okkur án Remys og hvar við getum ráðist á þá, með hvaða hætti og hvernig líkurnar aukast á því að við getum komið okkur í ákjósanleg færi sóknarlega, stöðvað þá varnarlega og tekið þá út úr því sem þeir eru að reyna.

Þetta eru upplýsingar sem við þurfum aðeins að skoða og liggja yfir til þess að koma með eitthvað plan til þess að reyna að vinna þá,“ sagði Pétur að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert