Murray sendi LeBron James í sumarfrí

Jamal Murray skýtur yfir Austin Reaves og skorar sigurkörfu Denver …
Jamal Murray skýtur yfir Austin Reaves og skorar sigurkörfu Denver gegn Lakers í nótt. AFP/Matthew Stockman

Jamal Murray var heldur betur örlagavaldur í einvígi Denver Nuggets og Los Angeles Lakers í fyrstu umferð úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfuknattleik.

Hann tryggði Denver sigur í öðrum leik liðanna með flautukörfu og í nótt skoraði hann sigurkörfuna í fimmta leik liðanna í Denver, 108:106, þegar 3,6 sekúndur voru til leiksloka.

Fyrir vikið eru meistararnir komnir í undanúrslit Vesturdeildarinnar en LeBron James og samherjar hans í Lakers eru úr leik. Einvígið endaði 4:1 og Denver mætir Minnesota Timberwolves í undanúrslitunum.

Murray glímdi við tognun í kálfa fyrir leikinn en lét hana ekki stöðva sig og skoraði 32 stig í leiknum. Litlu munaði að Nikola Jokic næði þrefaldri tvennu en hann skoraði 25 stig, tók 20 fráköst og átti níu stoðsendingar fyrir Denver.

LeBron James verður fertugur í árslok og lauk sinni sautjándu …
LeBron James verður fertugur í árslok og lauk sinni sautjándu úrslitakeppni í NBA í nótt. AFP/Matthew Stockman

LeBron hafði jafnað metin í 106:106 úr tveimur vítaskotum og skoraði 30 stig í leiknum ásamt því að eiga 11 stoðsendingar. Þetta er aðeins í annað skipti af sautján þar sem hann er sleginn út í fyrstu umferð úrslitakeppninnar og í fyrsta skipti sem hann spilar aðeins fimm leiki.

Óhætt er að segja að Lakers hafi veitt meisturunum verðuga keppni þrátt fyrir fjóra ósigra í fimm leikjum því í leikjunum í heild var Lakers með forystu um 75 prósent leiktímans.

Oklahoma áfram og Boston stendur vel

Oklahoma City Thunder er komið í undanúrslit Vesturdeildar eftir að hafa sópað út New Orleans Pelicans, 4:0, og vann fjórða leikinn í New Orleans í nótt, 97:89. Jalen Williams og Shai Gilgeous-Alexander skoruðu 24 stig hvor fyrir Oklahoma og CJ McCollum 20 fyrir New Orleans.

Oklahoma mætir annaðhvort LA Clippers eða Dallas en staðan í einvígi þeirra er 2:2.

Boston Celtics er komið í kjörstöðu gegn Miami Heat í Austurdeildinni eftir útisigur í nótt, 102:88. Staðan er 3:1 fyrir Boston sem er á heimavelli í fimmta leikjum. Derrick White skoraði 38 stig fyrir Boston og Jayson Tatum 20 en Bam Adebayo skoraði 25 stig fyrir Miami. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert