Unnu til átta gullverðlauna

Skarphéðinn Hjaltason, fyrir miðju, vann tvöfalt.
Skarphéðinn Hjaltason, fyrir miðju, vann tvöfalt. Ljósmynd/Judofélag Reykjavíkur

Judofélag Reykjavíkur vann til átta gullverðlauna á Íslandsmóti karla og kvenna í júdó, sem fór fram laugardagrinn 27. apríl í Laugardalshöllinni.

Keppendur voru 39 frá fimm félögum og var keppt í sex þyngdarflokkum karla og tveimur þyngdarflokkum kvenna. Auk þess var keppt í opnum flokkum.

Ingólfur Rögnvaldsson úr JR vann örugglega í -66 kg flokknum og var það jafnframt fjórða árið í röð sem Ingólfur verður Íslandsmeistari.

Romans Psenicnijs úr JR, sem keppti til úrslita við Ingólf í fyrra í -66 kg flokki, keppti núna í -73 kg flokki og mætti þar liðsfélaga sínum Daron Hancock í keppni um gullverðlaunin, en þeir hafa oft mæst áður í úrslitum. Um jafna viðureign var að ræða sem endaði að lokum með sigri Romans er hann vann á wazaari.

Aðalsteinn Björnsson úr JR varð Íslandsmeistari í annað sinn er hann sigraði liðsfélaga sinn Mikael Ísaksson í úrslitum í -81 kg flokki en í fyrra sigraði hann -73 kg flokkinn.

Skarphéðinn vann tvöfalt

Skarphéðinn Hjaltason úr JR sigraði bæði -90 kg flokkinn og opinn flokk en þar mætti hann Aðalsteini í úrslitum og vann með glæsilegu kasti. Þetta voru fyrstu Íslandmeistaratitlar Skarphéðins en hann keppti til úrslita í fyrra og varð þá að lúta í lægra haldi gegn Árna Pétri Lund, einnig úr JR, í opna flokknum.

Árni Pétur keppti í -100 kg flokki og vann sinn sjöunda Íslandsmeistaratitil er hann sigraði Egil Blöndal í keppninni um gullið. Árni vann tvöfalt í fyrra, þá -90 kg flokkinn og opna flokkinn.

Íris Ragnarsdóttir og Weronika Komendera.
Íris Ragnarsdóttir og Weronika Komendera. Ljósmynd/Judofélag Reykjavíkur

Weronika vann einnig tvöfalt

Weronika Komendera úr JR vann einnig tvöfalt eins og Skarphéðinn er hún sigraði bæði -63 kg flokkinn og opna flokkinn og voru það jafnframt hennar fyrstu Íslandsmeistaratitlar í senioraflokki.

Alls vann JR til átta gullverðlauna, fjögurra silfurverðlauna og sex bronsverðlauna á mótinu á laugardag.

Aðrir sem urðu Íslandsmeistarar og einnig í fyrsta skipti voru þau Sigurður Hjaltason úr Selfossi í +100 kg flokki og Íris Ragnarsdóttir úr Judofélagi Suðurlands í +78 kg flokki.

Er hún fyrsti Íslandsmeistari JS í sögunni og vann jafnframt til silfuverðlauna í opnum flokki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert