Owen: Hefðir ekki getað skrifað þetta betur

Í sjónvarpsþættinum Referees Mic’d Up var farið yfir ákvörðunina að dæma vítaspyrnu á André Onana, markvörð Manchester United, í jafntefli gegn Burnley í ensku úrvalsdeildinni um síðustu helgi.

Onana rauk þá út úr marki sínu og braut á Zeki Amdouni þegar boltinn var hvergi nærri. VAR skoðaði atvikið og benti dómaranum John Brooks, sem sá ekki atvikið upphaflega, á að dæma skyldi vítaspyrnu.

„Howard, ég er viss um að þú hefðir ekki getað skrifað þetta handrit betur. Í allra fyrsta þættinum okkar var það Onana gegn Wolves, afskaplega svipað atvik. Við erum komnir heilan hring.

Lærdómur var dreginn af því atviki eins og sást hér,“ sagði þáttastjórnandinn Michael Owen og vísaði til þess þegar Onana braut á leikmanni Úlfanna með svipuðum hætti í fyrstu umferð án þess að VAR aðhefðist nokkuð.

Umræðu Owens og Howards Webbs, formanns samtaka atvinnudómara á Englandi, PGMOL, um atvikið gegn Burnley má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan, en mbl.is færir ykkur efni úr enska boltanum í samstarfi við Símann Sport.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert