Markvörðurinn á förum frá Liverpool?

Caoimhin Kelleher hefur verið afar traustur í marki Liverpool þegar …
Caoimhin Kelleher hefur verið afar traustur í marki Liverpool þegar hann hefur fengið tækifæri. AFP/Paul Ellis

Flest bendir til þess að írski landsliðsmarkvörðurinn Caoimhin Kelleher yfirgefi enska knattspyrnufélagið Liverpool í sumar.

Football Insider fjallar í dag um stöðu Kellehers hjá Liverpool þar sem hann er varamarkvörður fyrir Alisson Becker en hefur leikið 26 leiki með aðalliðinu í fjarveru Brasilíumannsins sem hefur meiðst nokkrum sinnum á undanförnum árum.

Kelleher er orðinn 25 ára gamall og hefur fengið mikið hrós fyrir frammistöðu sína hjá Liverpool, ekki síst hjá Jürgen Klopp sem kallaði hann besta varamarkvörð heims fyrr á tímabilinu þegar hann leysti Alisson af hólmi í nokkrar vikur.

Samkvæmt Football Insider telur Kelleher tímabært að verða aðalmarkvörður en ljóst sé að það gerist ekki strax hjá Liverpool og innan félagsins sé reiknað með því að Írinn þrýsti fast á það að verða seldur í sumar. Wolves reyndi að kaupa hann síðasta sumar og Nottingham Forest í janúar en Liverpool neitaði þá að selja hann.

Talið er að Kelleher verði seldur á um það bil 20 milljónir punda og margir verði um hituna, enda sé Írinn mjög hátt skrifaður eftir frammistöðu sína með Liverpool.

Liverpool er sagt vera komið með arftaka hans í sigtið en það sé James Trafford, markvörður Burnley, sem er 21 árs og kom þangað frá Manchester City síðasta sumar fyrir 19 milljónir punda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert