„Það má ekki stara bara inn í svartholið“

Ólafur Kristjánsson þjálfari Þróttar
Ólafur Kristjánsson þjálfari Þróttar Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Þróttur bíður enn eftir fyrsta sigri liðsins í Bestu-deild kvenna í fótbolta. Þriðja umferðin hófst í dag með þremur leikjum. Þróttur tapaði 2:1 gegn Þór/KA á Akureyri og er liðið með eitt stig í 8. sæti deildarinnar. Þjálfarinn, Ólafur Kristjánsson, kom í viðtal eftir leik.

„Maður er alltaf ósáttur við að tapa en það þarf að kyngja því. Við vorum að spila við hörku gott lið með öfluga sóknarmenn. Mér fannst við byrja leikinn vel. Svo er Þór/KA sterkari um miðbik leiksins og annað markið þeirra drap þetta svolítið. Við enduðum þó leikinn betur en maður fær ekkert fyrir það.“

Það má með sanni segja að Þróttur hafi átt nokkra góða sénsa í fyrri hálfleik þegar Caroline Murray fór hamförum á vinstri vængnum. „Við réðumst ekki nógu mikið á teiginn þegar Caroline er að brjótast í gegn. Sendingar og hlaup inn í teig þurfa að passa saman. Þegar þú skapar þér ekki færi er erfitt að skora. Við virkuðum beittari í teignum í seinni hálfleik en markið okkar kom aðeins of seint. Við vissum að þær lúrðu alltaf á skyndisóknunum þannig þú ert bæði að reyna sækja leikinn og vita af hættunni sem vofir yfir. Lokakafli okkar var flottur og við mitt lið var líklegt til að skora en eins og ég sagði þá kom markið full seint.“

Þrótturum gekk illa að hemja Söndru Maríu Jessen
Þrótturum gekk illa að hemja Söndru Maríu Jessen Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Byrjun mótsins hefur verið strembin fyrir Þrótt. Jafntefli gegn Fylki í fyrsta leik og tvö 2:1-töp í kjölfarið, gegn Val og Þór/KA.

„Ég tel Val og Þór/KA tvö af bestu liðum deildarinnar og okkur vantar smá herslumun til að vinna þessi lið. Það verður bara að spýta í lófana og bæta það sem aflaga hefur farið.“

Það er þá bara næsti leikur.

„FH er næst á dagskrá. Stelpurnar eru svekktar að hafa ekki fengið neitt út úr leiknum í dag. Það má ekki stara bara inn í svartholið. Það þarf á einhverjum tímapunkti að sjá ljósið. Mér líst vel á mitt lið og hef fulla trú á að við komumst á sporið og það er margt jákvætt“ sagði hinn margreyndi þjálfari að lokum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert