„Að sjálfsögðu mjög vonsvikinn“

Jonathan Glenn, þjálfari Keflavíkur
Jonathan Glenn, þjálfari Keflavíkur Ljósmynd/Kristinn Steinn

Keflavík heimsóttu Fylkiskonur í Árbænum í kvöld í þriðju umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu. Leikar enduðu 4:2 fyrir Fylki sem þýðir að Keflavík er án sigurs eftir þrjá leiki. Jonathan Glenn, þjálfari Keflavíkur var að vonum vonsvikinn.

„Að sjálfsögðu er ég mjög vonsvikinn, mér fannst við ekki nógu góð í dag. Uppspilið gekk ekki vel, við héldum illa í boltann og þær sóttu hratt á okkur og þar töpuðum við leiknum í dag.“

Keflavík hefur fengið á sig sjö mörk í síðustu tveim leikjum.

„Í síðustu tveimur leikjum höfum við skorað fjögur mörk og það ætti að vera nóg til að vinna leiki en því miður erum við að fá alltof mörg mörk á okkur,“ sagði Glenn í viðtali við mbl.is eftir leik.

Keflavík mætir ósigruðum Valskonum í næsta leik.

„Við þurfum að mæta vel undirbúin, eins og í alla leiki í Bestu deildinni, þetta verður erfitt en við verðum að vera tilbúin og við þurfum að vera þéttari varnarlega,“ sagði Glenn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert