„Búið að vera í dreifingu í einhvern tíma“

Nanna segir að flestir séu bólusettir við kíghósta og séu …
Nanna segir að flestir séu bólusettir við kíghósta og séu þannig með vörn. Ljósmynd/Colourbox

Kíghósti hefur greinst hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu og þykir ljóst að sýkingin hefur náð útbreiðslu.

„Það hafa greinst nokkur tilfelli á höfuðborgarsvæðinu. Það er talið að þetta sé búið að vera í dreifingu í einhvern tíma af því að við erum að sjá þetta á nokkrum stöðum á höfuðborgarsvæðinu en ekki í einum borgarhluta. Við vitum í raun ekki um framhaldið en fylgjumst auðvitað grannt með,“ segir Nanna Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga á höfuðborgarsvæðinu, við mbl.is.

Nanna segir að fylgst sé með stöðunni. Hún segir að heilsugæsluna vakandi yfir þessum einkennum og muni bregðast við með sýnatöku hjá því fólki sem er með þau einkenni sem samsvara kíghóstanum.

Hún segist ekki hafa heyrt fleiri staðfest tilfelli en fjögur en þeir sem hafi greinst sé fólk á unglingsaldri og fullorðnir.

Landspítalinn í Fossvogi.
Landspítalinn í Fossvogi. mbl.is/Jón Pétur

Mikið af öðrum öndunarfærasýkingum

„Það er líka mjög mikið af öðrum öndunarfærasýkingum í gangi. Það erum margir með hósta og kvef sem er ekki af völdum kíghósta,“ segir Nanna.

Hún segir að ef fólk hafi tengsl við annan með greindan kíghósta og fær slæm hóstaköst þá vilji heilsugæslan heyra í viðkomandi og þá verði honum komið í sýnatöku þannig að hægt verði að skera úr um hvort hann hafi kíghósta.

„Það er í sjálfu sér ekki oft verið að gefa meðferð við kíghóstanum. Það er í undantekningatilfellum en auðvitað heldur fólk sér frá fjölmenni á meðan það versta er að ganga yfir á meðan það er möguleika smitandi,“ segir Nanna.

Nanna segir að flestir séu bólusettir við kíghósta og séu þannig með vörn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert