Einn handtekinn út af þjófnaðinum í Hamraborg

Verðmætaflutningabíllinn var lagður í Hamraborg.
Verðmætaflutningabíllinn var lagður í Hamraborg. mbl.is/Árni Sæberg

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók karlmann um fertugt í fyrradag vegna rannsóknar á innbroti og þjófnaði á fjármunum úr verðmætaflutningabíl Öryggismiðstöðvarinnar í Hamraborg í mars.

Maðurinn var í gær úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald, eða til 7. maí, í Héraðsdómi Reykjaness.

Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglu.

Fram að þessu hefur enginn verið úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna málsins sem kom upp fyrir rúmum fimm vikum. Ekki kemur fram í tilkynningu lögreglu hvort maðurinn sem sætir nú gæsluvarðhaldi sé grunaður um að vera einn af þjófunum eða hvort hann tengist málinu með öðrum hætti.

Stolnar númeraplötur

Þjófar stálu á bilinu 20 til 30 milljónum króna úr verðmætaflutningabifreið sem var lögð í Hamraborg fyrir framan veitingastaðinn Catalinu 25. mars.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lýsti í kjölfarið eftir tveimur mönnum á dökk­grá­um Toyota Yar­is með tveimur skráningarnúmerum sem hafði verið stolið af öðrum ökutækjum.

Vegfarandi sem átti leið um Esjumela stuttu eftir þjófnaðinn gekk fram á fjórar af þeim peningatöskum sem þjófarnir höfðu með sér á brott. Töskurnar voru allar búnar litasprengjum sem eyðileggja verðmæti ef tilraun er gerð til þess að nálgast þau.

Í gær bárust fregnir af því að grunur væru um að tilraun hefði verið gerð til að koma lituðum peningum í umferð. Hafði lögregla fengið ábendingar um litaða pening í umferð, m.a. á stöðum sem reka spilakassa.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert