Vorum bara mjúkir

Daniel Mortensen úr Grindavík með boltann í kvöld.
Daniel Mortensen úr Grindavík með boltann í kvöld. mbl.is/Skúli

Jóhann Þór Ólafsson þjálfari Grindavíkur af afar svekktur með naumt tap liðsins gegn Keflavík í öðrum leik undanúrslitaeinvígisins á Íslandsmóti karla í körfubolta í kvöld. Staðan í einvíginu er 1:1 en liðin mætast aftur í Smáranum á miðvikudag. Spurður út í leikinn sagði Jóhann þetta:

„Við vorum slakir sóknarlega. Nokkur varnarkerfi sem drepa okkur. Þetta var jafn leikur, tvö góð lið en mér fannst við geta gert miklu betur, sérstaklega sóknarlega."

Lið Keflavíkur þétti vörn sína rosalega inn í teignum og það sást glögglega að lið Grindavíkur var í vandræðum með að komast undir körfuna. Áttir þú engin svör við þessu?

„Þeir gerðu bara vel. Síðan vorum við bara mjúkir. Mínir menn eru ekki sammála því en þegar við sóttum á körfuna þá hefðum við getað verið miklu harðari. Við þurfum bara að skoða þetta. Núna reynir bara á okkur að koma til baka og sýna úr hverju við erum gerðir. Þetta er enginn heimsendir. Við þurfum að vinna tvo leiki í viðbót og við stefnum á það."

Grindavík var í vænlegri stöðu þegar lítið var eftir en þið tapið þriggja stiga forskoti frá ykkur í tveimur sóknum. Voru taugarnar of þandar?

„Við gerum mistök í síðustu sókninni og bara misstum þetta. Á sama tíma ná þeir þrist."

Hvað þarf að gerast til að vinna Keflavík á miðvikudaginn?

„Við þurfum að spila betri sókn, hreyfa boltann betur, setja skrín og refsa þeim," sagði Jóhann í samtali við mbl.is  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert