Best að gleyma þessum leik sem fyrst

Þorvaldur Árnason með boltann í leiknum í kvöld.
Þorvaldur Árnason með boltann í leiknum í kvöld. mbl.is/Skúli B. Sigurðsson

Valsmenn gerðu góða ferð í Ljónagryfjuna í Njarðvík í kvöld og jöfnuðu einvígi liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta.

Staðan er 1:1 en þrjá sigra þarf til að komast í úrslitaeinvígið gegn annað hvort Keflavík eða Grindavík. Njarðvík átti afar dapran leik, sérstaklega í sóknarleik sínum.

Þorvaldur Árnason leikmaður Njarðvíkur var svekktur í lok leiks þegar mbl.is tók hann tali.

Njarðvík tapar hér kvöld og staðan í einvíginu er 1:1. Er spilamennska Njarðvíkur í kvöld ásættanleg, sérstaklega hér í Ljónagryfjunni?

„Nei, í rauninni ekki. Skotin hjá þeim voru að detta og ekki hjá okkur. Það er svolítið leikurinn í hnotskurn,“ sagði hann.

Leikurinn var samt mjög jafn alveg fram í fjórða leikhluta en þá brotnar Njarðvík. Hvað gerðist?

„Tapaðir boltar á mjög viðkvæmum tímapunktum hjá okkur og þeir refsuðu okkur harkalega í kjölfarið. Þeir refsa alltaf ef maður gefur boltann eins og við gerðum í kvöld. Það skóp sigurinn hjá þeim,“ útskýrði Þorvaldur.

Njarðvíkingar voru kærulausir með boltann, sérstaklega í lokin. Ertu með einhverja skýringu á því?

„Eins og þú sérð í þessum leik þá pössum við boltann ekki nægilega vel og þeir refsuðu okkur ítrekað þegar við gáfum þeim boltann,“ sagði hann.

Ertu sammála því þegar ég segi að Dwayne Lautier-Ogunleye hafi verið eini leikmaður Njarðvíkur sem var á pari í kvöld? Er ekki áhyggjuefni hversu margir leikmenn voru að spila undir getu í kvöld?

„Jú, algjörlega. Við þurfum að skoða leik númer eitt og hvað við gerðum þar og byggja ofan á það. Á sama tíma held ég að það sé best að gleyma þessum leik sem fyrst hvað varðar sóknarleikinn.“

Er það eina breytingin sem Njarðvík þarf að gera fyrir næsta leik?

„Já, ég myndi segja það. Við vorum mjög góðir varnarlega og þeir náðu að setja niður erfið skot í kvöld þannig að við þurfum að vinna í þessum töpuðu boltum og hitta almennilega,“ sagði Þorvaldur að lokum í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert