Fyrsti leikurinn situr enn í mér

Elín Klara Þorkelsdóttir í baráttu við Önnu Úrsúlu Guðmundsdóttur í …
Elín Klara Þorkelsdóttir í baráttu við Önnu Úrsúlu Guðmundsdóttur í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Elín Klara Þorkelsdóttir, leikstjórnandi Hauka, var að vonum svekkt eftir 28:25-tap fyrir Val í kvöld, sem þýðir að Valur er Íslandsmeistari í handknattleik.

„Mér fannst við byrja mjög sterkt. Við mættum mjög vel í leikinn og mér fannst varnarleikurinn vera mjög fínn heilt yfir.

Við duttum aðeins niður í fyrri hálfleik en sýndum flottan karakter með því að koma til baka og enduðum yfir í fyrri hálfleik.

Við byrjuðum seinni hálfleikinn vel en svo kemur kafli þar sem við duttum aðeins niður og við þurfum bara að skoða það betur,“ sagði Elín Klara í samtali við mbl.is eftir leik.

Kaflinn sem hún minnist á er þegar Valur breytir 16:16 stöðu í 21:16.

„Það er náttúrlega mjög erfitt að lenda í þessari stöðu á móti svona sterku liði. Við erum að fara illa með færin okkar og þær skora á móti. Ég myndi segja að það hafi verið að hrjá okkur á þessum slæma kafla,“ útskýrði Elín Klara.

Hún sagði Hauka geta litið stolta um öxl þrátt fyrir svekkelsið. Mest situr fyrsti leikur liðanna í Elínu Klöru, þar sem Haukar glutruðu niður fjögurra marka forskoti seint í leiknum og töpuðu með einu marki.

„Við komumst skrefinu lengra en í fyrra, við komumst í undanúrslit í fyrra. Við áttum frábært einvígi við Fram í ár.

Heilt yfir er ég mjög stolt af liðinu þó þetta sé svekkjandi. Þessi fyrsti leikur situr ennþá rosalega í mér,“ sagði hún og bætti við að Haukar myndu mæta tvíefldir til leiks á næsta tímabili.

„Algjörlega. Við æfum vel núna í sumar og komum svo til baka. Markmiðið er alltaf að fara einu skrefi lengra,“ sagði Elín Klara ákveðin að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert