Undrabarnið heldur áfram að heilla

Luke Littler.
Luke Littler. AFP

Hinn 17 ára gamli Luke Littler tryggði sér í gærkvöldi sæti í úrslitakeppni úrvalsdeildarinnar í pílukasti en hann lagði Rob Cross í úrslitaleik í gær.

Úrvalsdeildin í pílukasti virkar þannig að átta bestu leikmenn heims mætast vikulega og safna stigum yfir allt tímabilið. Littler er á toppi deildarinnar en hann hefur leikið afar vel í allan vetur og var engin undantekning á móti gærkvöldsins.

Littler lagði Nathan Aspinall í átta liða úrslitum í gær áður en hann sigraði Michael Smith örugglega í undanúrslitum. Hann lagði svo eins og áður sagði Rob Cross í úrslitaleiknum.

Littler er lang efstur í úrvalsdeildinni með með 36 stig en hann hefur tryggt sér sæti í úrslitakeppninni líkt og heimsmeistarinn Luke Humphries sem er í öðru sæti með 28 stig. Fjórir af átta þátttakendum deildarinnar komast í úrslitakeppnina en eins og staðan er núna eru það Nathan Aspinall og Michael van Gerwen sem eru í þriðja og fjórða sætinu.

Littler kom fram á sjónarsviðið á heimsmeistaramótinu í desember á síðasta ári, þá aðeins 16 ára gamall. Hann spilaði eins og engill allt mótið og fór alla leið í úrslitaleikinn þar sem hann tapaði fyrir áðurnefndum Humphries.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert