Stjarnan sigldi fram úr í síðari hálfleik

Jón Gísli Eyland úr ÍA og Örvar Logi Örvarsson úr …
Jón Gísli Eyland úr ÍA og Örvar Logi Örvarsson úr Stjörnunni eigast við í dag. mbl.is/Eyþór

Stjarnan vann góðan sigur á Skagamönnum, 4:1 í 5. umferð Bestu deildar karla í fótbolta á Stjörnuvellinum í Garðabæ.

Stjarnan er þar með komið með þrjá sigra eftir fimm leiki, en Skagamenn eru enn með sex stig eftir fyrstu fjórar umferðirnar.

Það voru Skagamenn sem hófu leikinn betur, og náðu þeir nokkrum sinnum að ógna marki Stjörnunnar á upphafsmínútunum áður en Hinrik Hjartarson kom gestunum yfir á 9. mínútu með góðu skoti eftir þversendingu. 

Eftir markið var nokkuð jafnræði með liðunum, en Stjörnumenn byrjuðu svo að þrýsta ansi hressilega á gestina. Skagamenn virtust hins vegar una sér vel í þeirri stöðu, allt þar til á 28. mínútu að Emil Atlason náði loksins að brjóta ísinn með sínu fyrsta deildarmarki í sumar. 

Stjörnumenn tóku þá öll völd á vellinum, en náðu ekki að bæta við öðru marki í fyrri hálfleik, þó að nokkrum sinnum skylli hurð nærri hælum. 

Seinni hálfleikur hófst með miklum látum þegar Róbert Frosti Þorkelsson, vængmaður Stjörnunnar átti flott skot af vítateigslínunni sem Árni Marinó varði vel, en Skagamenn létu einnig til sín taka og áttu sín færi. 

Nokkur vendipunktur varð á leiknum á 58. mínútu, en þá fengu Skagamenn aukaspyrnu á stórhættulegum stað inni í D-boganum svonefnda, og tók Arnór Smárason spyrnuna. Skaut hann knettinum hins vegar rétt yfir þverslána svo að engu munaði að Skaginn tæki forystuna á ný. 

Stjörnumenn létu hins vegar ekki segja sér það tvisvar og skoruðu nánast strax í næstu sókn. Var það enginn annar en Róbert Frosti sem fékk boltann skammt utan vítateigs frá Guðmundi Baldvin Nökkvasyni eftir að Skagamenn höfðu tapað boltanum á vondum stað. Ákvað Róbert Frosti að taka skotið og söng boltinn í netinu, þrátt fyrir að Árni Marinó væri með hendur á honum. 

Jón Þór Hauksson, þjálfari Skagamanna, ákvað strax í kjölfarið að gera þrefalda skiptingu til þess að hrista upp í leik sinna manna. Leikmennirnir sem komu inn á fengu hins vegar lítinn tíma til þess að komast í takt við leikinn, því Guðmundur Björgvin náði þá eftir hraða sókn að leggja knöttinn yfir markteiginn, þar sem Óli Valur Ómarsson lúrði og þakkaði pent fyrir sig. 

Úrslitin voru þá í raun ráðin, þó að Skagamenn reyndu allt hvað þeir gætu til þess að komast aftur í leikinn. Stjörnumenn settu hins vegar smiðshöggið á sigurinn á 75. mínútu en þá fékk Örvar Eggertsson skot eftir hornspyrnu sem Árni Marinó varði beint upp í loftið. Guðmundur Baldvin kórónaði þá frábæran leik sinn með því að skalla frákastið inn nánast af marklínunni. Jón Þór þjálfari var mjög ósáttur við fjórða mark Stjörnumanna, þar sem hann taldi að Örvar hefði brotið af sér í aðdragandanum, en uppskar einungis gult spjald fyrir mótmæli. 

Skagamönnum skal sagt til hróss að þeir gáfust ekki upp og reyndu að minnka muninn allt til leiksloka, en höfðu ekki erindi sem erfiði. Verða þeir eflaust mörgum liðum óþægur ljár í þúfu í sumar, nái þeir að halda uppi sömu baráttu og á Stjörnuvellinum í kvöld.

Stjörnumenn geta hins vegar verið mjög ánægðir með frammistöðuna í kvöld, þar sem þeir lentu undir gegn þéttu varnarliði en náðu að snúa sér stöðunni í vil með þolinmæðisvinnu og góðri pressu. Sigur þeirra kemur líka á besta tíma fyrir Garðbæinga, þar sem allt annað en þrjú stig hefðu þýtt að liðið væri að dragast um of aftur úr toppliðunum. Með sigrinum í kvöld sýndu Stjörnumenn hins vegar að þeir eiga fullt erindi í baráttuna með þeim. 

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Stjarnan 4:1 ÍA opna loka
90. mín. Hér eru fjórar mínútur hið minnsta í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert