Ómótstæðilega góð appelsínukaka

Dýrðarljómi yfir þessari einföldu og góðu appelsínuköku með glassúr.
Dýrðarljómi yfir þessari einföldu og góðu appelsínuköku með glassúr. Ljósmynd/Unsplash

Þessi ómótstæðilega góða appelsínukaka á vel við með sunnudagskaffinu. Uppskriftin er einföld og kakan er mjúk og góð með glassúr og minnir á kökur sjöunda áratugarins. Síðan má skreyta hana að vild og leyfa hugarfluginu að ráða för.

Appelsínukaka með glassúr

  • 250 g sykur
  • 175 g smjör
  • 3 egg
  • ½ dl mjólk
  • 300 g hveiti
  • 1 tsk. lyftiduft
  • Appelsínubörkur af einni appelsínu
  • 200 g 70% dökkt súkkulaði
  • ½ -1 tsk. vanilludropar

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hita ofninn í 180°C.
  2. Hrærið saman sykur og smjör og setjið síðan eggin út í eitt í einu. Skafið vel niður á milli.
  3. Hellið mjólk saman við blönduna og bætið loks við þurrefnunum.
  4. Hreinsið appelsínuna og rifið niður börkinn.
  5. Skerið niður súkkulaðið og blandið saman við deigið ásamt appelsínuberkinum og vanilludropum.
  6. Setjið deigið í meðalstórt smurt kökuform, til dæmis kringlótt form með gati í miðjunni.
  7. Setjið inn í ofn og bakið í um það bil 50 mínútur.

Glassúr

  • 200 g flórsykur
  • 2 msk. appelsínusafi
  • ½ msk. sítrónusafi

Aðferð:

  1. Sigtið flórsykurinn og blandið söfunum saman við.
  2. Bætið við safa ef ykkur finnst glassúrinn vera of þykkur, þið veljið þykktina sem ykkur þykir best.
  3. Þegar kakan hefur kólnað hellið þá glassúrnum varlega yfir og látið leka hægt niður.
  4. Skreytið að vild, t.d. með rifnum appelsínuberki og ætisblómum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert