Ákall um að fólki sé ekki mismunað vegna búsetu

„Ég held að það hjálpi mér því mér finnst auðveld­ast að eiga við spurn­ing­ar sem snúa að valdi for­set­ans,“ sagði Baldur Þórhallsson, spurður hvort það hjálpi honum í kosningabaráttunni að vera stjórnmálafræðingur, á forsetafundi Morgunblaðsins og mbl.is á þriðjudag.

Baldur bætti því við að hann hefði fjallað um ís­lenska stjórn­kerfið, alþjóðasam­skipti og ut­an­rík­is­stefnu Íslands á sínum ferli sem prófessor.

Hann sagði á fundinum að það skipti máli að fólk viti hver forsetinn sé og að hann sé nú í þeirri vegferð að kynna sig og sín málefni fyrir þjóðinni.

Þjóðin vinni sem ein heild

Á fundum sínum um landið segir Baldur að margir hafi spurt hann um valdsvið forsetans og málskotsréttinn.

„En það sem ég hef lært mest af fundunum um landið er ákall – alveg frá Reykjanesi að Akranesi – eftir að þjóðin upplifi það að hún sé ein heild og að fólki sé ekki mismunað á grundvelli búsetu,“ sagði Baldur.

Hann sagði það vekja athygli sína hvað fólki á landsbyggðinni þætti það vera afskipt.

„Það er í rauninni að biðja mig að kalla eftir því í almennri umræðu að þjóðin upplifi það að hún sé á einu atvinnusvæði, hún sé eitt samgöngusvæði, þjóðin og landið sé eitt heilbrigðisvæði, mennta- og menningarsvæði,“ sagði hann og bætti við að hann muni hafa þetta með sér í farteskinu verði hann kjörinn forseti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert