Stórtæk áform um stækkun lúxushótels

Tindasel Lodge hefur ekki verið lengi í rekstri en þegar …
Tindasel Lodge hefur ekki verið lengi í rekstri en þegar eru uppi áform um mikla stækkun hótelsins og skipulagningu afþreyingar.

„Þetta er besta staðsetning á Íslandi. Hérna geturðu gist í 5-6 nætur og gert eitthvað nýtt og spennandi á hverjum degi. Við sjáum gífurleg vaxtartækifæri hér,“ segir Sigurður Sindri Magnússon, forstjóri og eigandi ferðaþjónustunnar Deluxe Iceland.

Fyrirtækið rekur hótelið Tindasel Lodge á Rangárvöllum. Þar eru nú átta herbergi sem rúma allt að sextán gesti. Hótelið er í uppgerðu fjósi sem áður tilheyrði jörðinni Stokkalæk. Stór áform eru á teikniborðinu um stækkun hótelsins á næstu árum. Ef þau ganga öll eftir verður hægt að taka á móti allt að 200 gestum þar hverju sinni. Markhópurinn er einkum vel stæðir Bandaríkjamenn.

Kostar allt að 2,8 milljarða

Fyrsta hluta verkefnisins er nú lokið en það fól í sér kaup á landinu, að koma rekstri átta herbergja hótels í gang og sækja um leyfi fyrir byggingar sem geta rúmað allt að 200 gesti. Annar hluti stendur nú yfir en hann felur í sér að leita fjármögnunar, byggja 10-15 smáhýsi sem eru að hluta til úr gleri auk frekari undirbúnings fyrir þriðja hluta sem á að fara í gang árið 2026.

Þá er stefnt að byggingu 40 herbergja hótels með spa-aðstöðu, líkamsrækt og veitingastað. Þar verði 10 hefðbundin herbergi, 10 stærri herbergi, 16 deluxe-herbergi og fjórar 70 fermetra svítur. Eldra húsnæði hótelsins verður nýtt sem gisting fyrir starfsfólk þess. Til viðbótar eru áform um aðra byggingu, „Private Lodge“, sem hægt verður að leigja í heilu lagi fyrir fjölskyldur eða hópa. Sigurður segir að þar geti fólk verið út af fyrir sig og haft sinn eigin kokk og þjón svo dæmi sé tekið. Mikill kostnaður fylgir þessari uppbyggingu og er áætlað að hann geti orðið allt að 20 milljónir dollara alls, eða um 2,8 milljarðar króna.

Nánar má lesa um málið í laugardagsblaði Morgunblaðsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert