Áskoranir tóku að berast síðasta haust

Hópar fólks hvöttu Höllu Hrund Logadóttur til þess að bjóða sig fram til embættis forseta, allt frá síðasta hausti. Löngu áður en ljóst varð að Guðni Th. Jóhannesson hygðist ekki bjóða sig fram.

Þetta kemur fram í viðtali við Höllu Hrund í Spursmálum.

Ekki stefnt að þessu lengi

Getur þú sagt mér hvenær þú fékkst fyrst þá hugmynd að bjóða þig fram til forseta, hvenær fór þetta að gerjast og hvenær að verða að veruleika? Hefur þú stefnt að þessu lengi?

„Nei, ég hef ekki stefnt að þessu lengi en ég hef alltaf fengið þessa hugmynd svona af og til frá ólíkum hópum. Og ég veit ekki hvort þú fylgdist með því en það var Gangnamannafélagið sem skoraði á mig í samlesnum auglýsingum en það er nú lengra síðan. Það er alveg síðan í haust sem það byrja að vera áskoranir og hvatning en...“

Gerist allt mjög hratt

Frá því áður en Guðni tók ákvörðun um að hætta?

„Í raun og veru kannski frá haustmánuðum en ekkert í líkingu við það sem gerist eftir að þessi áskorun kemur. Síðan er það einfaldlega þannig af því að þú spurðir út í það hversu hratt hlutir geta þróast og svo framvegis, að ég hugsaði þetta yfir tiltölulega stuttan tíma en ég hef alltaf brunnið fyrir almannahagsmunum og fyrir því að vinna fyrir samfélagið. Það hefur verið minn rauði þráður ef við horfum á mín störf í auðlindamálum við stofnanir hér heima og erlendis, þar sem ég var áður að vinna í málefnum hafsins sömuleiðis. Þannig að þessi samfélagshugsjón, að vilja vinna fyrir samfélagið okkar, hvort sem það er á sviði auðlinda eða sviði menningar eða jafnréttismála. Það hefur verið rauði þráðurinn í mínu starfi.“

Guðni Th. Jóhannesson tók við embætti forseta Íslands 2016. Farið …
Guðni Th. Jóhannesson tók við embætti forseta Íslands 2016. Farið var að skora á Höllu Hrund til að bjóða sig fram áður en hann tilkynnti að hann hygðist láta af embætti. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Hefði ekki farið gegn sitjandi forseta

En fyrst þú varst farin að fá áskoranir um að bjóða þig fram til forseta mörgum mánuðum áður en Guðni lýsti því yfir að hann hygðist ekki bjóða sig aftur fram, hugleiddir þú á einhverjum tímapunkti að bjóða þig fram gegn sitjandi forseta?

„Nei aldrei. Aldrei svo. Oft er það oft bara þannig að einhverjir hvetja mann til ýmissa góðra verka.“

Þessir áskorendur hafa þá væntanlega verið að hugsa þetta þannig að þú myndir bjóða þig fram gegn sitjandi forseta.

Halla Hrund Logadóttir forsetaframjóðandi er gestur Spursmála að þessu sinni.
Halla Hrund Logadóttir forsetaframjóðandi er gestur Spursmála að þessu sinni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fegurð í stuðningnum

„Ég hefði aldrei horft á það þannig. Það bara hvarflaði ekki að mér. Það er bara þegar þetta raungerist svona og þá gerist þetta bara mjög hratt og ekki ósvipað þeirri þróun sem hefur átt sér stað á undanförnum vikum. Þannig að ég er bara þakklát og hrærð yfir þessum hlýju móttökum og ég er sérstaklega hrærð yfir því að við erum að sjá lýðræðið, við erum að sjá hundruð sjálfboðaliða að taka á móti manni um allt land. Fólk sem er búið að leggja mikið á sig við að opna dyr allstaðar. Og það er einhver fegurð í því.“

 Viðtalið við Höllu Hrund má sjá og heyra í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert