Fjármálaráðherra skólaður til í hagfræði

Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðný Halldórsdóttir, formaður Hagsmunafélags kvenna í hagfræði (HKH), gagnrýnir hagfræðikunnáttu Sigurðar Inga Jóhannssonar fjármálaráðherra. Hún segir hugmyndir hans um sambandið milli vaxta og verðlags stangast á við skoðun flestra hagfræðinga og hann eigi þær helst sameiginlegar með Erdogan forseta Tyrklands.

„Í seinni tíð hefur Tyrklandsforseti líklega verið þekktasti kyndilberi þeirrar hugmyndafræði að besta ráðið við mikilli verðbólgu sé að lækka vexti. Góðu ráðin hafa þó reynst honum nokkuð dýr, enda virðist honum hafa snúist hugur og eru stýrivextir í Tyrklandi nú um 50% og verðbólga ekki nema 70%,“ segir Guðný í greininni sem birtist á vefsvæði HKH.

Vísar hún þar í orð Sigurðar Inga sem féllu í hádegisfréttum á RÚV í gær: „Ég held að það sé að einhverju leyti, svona hátt vaxtastig og hátt raunvaxtastig sé í raun farið að bíta í skottið á sjálfu sér. Það er að segja að svona háir vextir hafi í raun og veru áhrif á að verðbólgan sé jafnhá eins og hún er. Ég held að það sé eitt af því sem ég vona að Seðlabankinn taki til skoðunar,“ sagði hann.

Guðný Halldórsdóttir, formaður Hagsmunafélags kvenna í hagfræði.
Guðný Halldórsdóttir, formaður Hagsmunafélags kvenna í hagfræði. Ljósmynd/Birgir Ísleifur Gunnarsson

Singanomics' einföldun á sambandi vaxta og verðbólgu

Guðný telur hugmyndafræði Sigurðar Inga, sem hún kallar ‚Singanomics‘ með vísan í nafn ráðherra og enska hugtakið economics, eiga rætur sínar að rekja til þess að vextir séu íþyngjandi fyrir fyrirtæki, ekki síður en heimili. „En ólíkt heimilunum þá geti fyrirtækin velt slíkum kostnaðarhækkunum út í verðlagið. Sambandið á milli vaxta og verðbólgu er aftur á móti alls ekki svo einfalt,“ skrifar hún.

Hún bendir á að þegar vextir hækka skapist aukinn hvati til sparnaðar og eftirspurn í hagkerfinu dragist saman.

„Fyrirtæki fresta fjárfestingum samhliða hærri fjármagnskostnaði sem hægir einnig á hagkerfinu. Undir slíkum kringumstæðum getur það reynst fyrirtækjum þrautin þyngri að velta auknum fjármagnskostnaði út í verðlagið. Geta fyrirtækja til að greiða hærri laun minnkar líka samhliða hækkandi fjármagnskostnaði og samningsstaða launafólks veikist þegar draga fer úr spennu í hagkerfinu, samferða minni umsvifum.“

Þá geti vaxtahækkanir leitt til þess að gengi krónunnar styrkist sem hafi jákvæð áhrifum á verð á innfluttum vörum.

„Allt saman vegur þetta mun þyngra en möguleg kostnaðaráhrif hærri vaxta á verðlag,“ segir hún.

Enginn græðir ef Seðlabankinn hleypur á sig

Guðný er aukinheldur hugsi yfir þeim orðum Sigurðar Inga að það væri jákvætt klapp á bakið fyrir fjögurra ára kjarasamninga og hófsaman útgjaldavöxt fjármálaáætlunar að Seðlabankinn myndi lækka vexti.

„Það er ekki rangt hjá ráðherra að vaxtalækkun væri gott klapp á bak aðila vinnumarkaðarins og ákveðin staðfesting á því að vel hafi tekist til við gerð langtímakjarasamninga. Það er hins vegar alveg ljóst að enginn græðir á því ef Seðlabankinn hleypur á sig og lækkar vexti fyrr en tilefni er til.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK