Starfsfólk fjármálafyrirtækja búið að semja

Haldið var vöfflukaffi í Karphúsinu í gær í tilefni sáttarinnar.
Haldið var vöfflukaffi í Karphúsinu í gær í tilefni sáttarinnar. mbl.is/Golli

Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF) og Samtök atvinnulífsins undirrituðu í gær nýjan kjarasamning í Karphúsinu. Samningurinn verður kynntur í vikunni og tekinn til atkvæðagreiðslu.

Þetta staðfestir Ari Skúlason, formaður SSF, í samtali við mbl.is en í félaginu eru um 3.600 manns á almennum á vinnumarkaði. Hann fagnar því að samningar hafi náðst.

Samningurinn er til fjögurra ára. Samið var um prósentutöluhækkun upp á 3,25 á þessu ári, og síðan 3,5 á næstu þremur árum þar á eftir, að sögn Ara. „Alveg nákvæmlega eins og er í öðrum samningum.“

Ánægðari með prósentur en krónur

„Okkar fólk er náttúrulega með hærri laun en gengur og gerist, þannig að krónutöluhækkanir hafa bitnað á okkur. Þannig að við erum í þeirri stöðu að það er sama prósenta upp allan stigann,“ segir hann og bætir við að þetta sé fyrsta skiptið í þremur samningaviðræðum sem starfsfólk fjármálafyrirtækja fær hlutfallslega sömu launahækkun og aðrir.

Ari segir að viðræðurnar hafi gengið „eins og við var að búast“. Hann útskýrir:

„Þetta er búið að vera svolítið hnoðið, við erum búin að reyna að ná meiru fram á ýmsum sviðum. Sumt tekst og sumt tekst ekki eins og gerist og gengur.“

Líftryggingar, orlofsréttindi og menntasjóður

Þá hafi SFF náð fram umbótum í orlofsréttindum félagsmanna sinna og séð til þess að vinnuveitendur greiði meira í menntunarsjóð.

„Svo vorum við aðeins að skoða líftryggingar sem við erum með í okkar kjarasamningum, að bæta þær aðeins. En svo er það upptalið. Það er ekki mikið meira sem er í samkomulaginu,“ bætir hann við.

Næstu skref hjá SSF eru að kynna samninginn fyrir félagsmönnum sínum, segir formaðurinn. Hann segir líklegt að atkvæði um samkomulagið verði greidd á föstudag.

Fréttin hefur verið uppfærð. Fyrst kom fram að hækkunin á fyrsta ári væri 2,25%, sem var ekki rétt. 3,25% er rétt.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK