Rifjar upp kaupin á Guðbjörgu ÍS sem átti áfram að vera gul

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.

Það hefur nokkuð verið fjallað um söluna á Guðbjörg ÍS, togarans sem seldur var frá Ísafirði til Samherja um miðjan tíunda áratug síðustu aldar. Það hefur þó minna verið fjallað um þá staðreynd að þeir fjármunir sem fengust fyrir söluna áttu eftir að skila sér í auknum veiðiheimildum til Vestfjarða.

Þetta kemur fram í ítarlegu viðtali við Þorstein Má Baldvinsson, forstjóra Samherja, í nýjum hlaðvarpsþætti Þjóðmála. Þar er meðal annars fjallað um fiskveiðistjórnunarkerfið og umræðuna í kringum það á liðnum árum. Í þættinum er meðal annars vísað til þeirrar umræðu sem skapaðist í kringum Verðbúðina, þátta sem sýndir voru í byrjun árs 2022.  

Til upprifjunar má geta þess að Samherji keypti Guðbjörgu ÍS af útgerðarfélaginu Hrönn á Ísafirði. Umræða um þau viðskipti, og þekkt ummæli Þorsteins Más um að Guðbjörgin yrði áfram gul (sem vísar til þess að skipið yrði áfram gert út frá Ísafirði) hafa gjarnan verið hávær þegar rætt er um fiskveiðistjórnunarkerfið.

„Það hefur oft verið fjallað um þau kaup og ég hef ekki verið nógu duglegur að segja þá sögu sjálfur,“ segir Þorsteinn Már þegar hann er spurður út í þetta í hlaðvarpi Þjóðmála.

Hann rifjar upp að Samherji hafi keypt skipið og útgerðina, sem þá stóð illa fjárhagslega. Fyrr eigendur höfðu tekið áhættu en sátu uppi með erfiðan rekstur og greiddu háa vexti af fjárfestingunni í skipinu. Reksturinn hafi því ekki staðið undir væntingum.

„Ég byrjaði í samstarfi við þessa ágætu menn, það endaði með því að þeir gerðust hluthafar í Samherja,“ rifjar Þorsteinn Már upp.

„Ég í einhverju bjartsýniskasti segi þessa frægu setningu um skipið, að Guðbjörgin yrði gul áfram. En sú bjartsýni byggði ekki á rökum.“

Fjárfesti í Jakobi Valgeiri

Hann rifjar upp í framhaldinu að Ásgeir Guðbjartsson, fv. skipstjóri á Guðbjörgu og útgerðarmaður frá Vestfjörðum, hafi síðar selt hlut sinn í Samherja og nýtt fjármagnið til að fjárfesta aftur útgerð á Vestfjörðum, þá í fyrirtækinu Jakobi Valgeir, sem nú er öflugt útgerðarfélag í Bolungarvík.

„Þeir fjármunir sem þeir fengu út úr Samherja voru nýttir til að kaupa veiðiheimildir sem voru miklu meiri en á Guðbjörginni á sínum tíma. Þetta vilja menn sjaldan ræða,“ segir Þorsteinn Már.

Þess má geta að Guðbjörg er í dag komin aftur í flota Samherja og heitir nú Snæfell EA. Skipið hét um tíma Baldvin Þorsteinsson, og strandaði sem kunnugt er í Skarðsfjöru á Meðallandsfjörum í mars 2003 – en einnig er fjallað um það í fyrrnefndum hlaðvarpsþætti Þjóðmála. Skipið átti einnig eftir að nýtast dótturfélagi Samherja í Þýskalandi og var síðar selt til Færeyja, en kom aftur til landsins haustið 2022.

Árétting. Í fyrri útgáfu fréttarinnar var ranglega haft eftir Þorsteini Má að fjárfesting Ásgeirs hafi lagt grunninn að útgerðarfélaginu Jakobi Valgeir. Hið rétta er að Ásgeir kom síðar inn í hluthafahópinn, eins og tekið er fram í umræddum hlaðvarpsþætti.

Guðbjörg ÍS heitir nú Snæfell EA og er í eigu …
Guðbjörg ÍS heitir nú Snæfell EA og er í eigu Samherja. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK