Tek góða tæklingu fram yfir mark allan daginn

Kyle McLagan hirðir boltann af Óla Val Ómarssyni með glæsilegri …
Kyle McLagan hirðir boltann af Óla Val Ómarssyni með glæsilegri tæklingu í leiknum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við tökum þessu,“ sagði Kyle McLagan varnarmaður Fram í samtali við mbl.is í kvöld. Hann átti stóran þátt í að Framliðið náði í eitt stig í Garðabæ er liðið mætti Stjörnunni í Bestu deildinni. Urðu lokatölur 1:1.

„Þetta er erfitt lið heim að sækja. Við tökum stigið og ellefu stig eftir sex leiki, við erum sáttir við það. Rúnar, Helgi, Gareth og allt þjálfarateymið hafa breytt öllu í búningsklefanum. Við erum með 14 leikmenn sem vinna vel hver fyrir annan. Allir sem koma inn á berjast eins vel og þeir sem byrja,“ sagði sá bandaríski.

Stjarnan var marki yfir í hálfleik og var sterkari aðilinn. Fram lék betur í seinni og uppskar eitt stig.

„Þetta var erfitt í fyrri hálfleik, bæði fyrir mig sjálfan og allt liðið. Við áttum í vandræðum með þá. En í seinni hálfleik sýndum við karakter, baráttu og þor og vorum verðlaunaðir með marki og stigi.“

McLagan átti nokkrar stórglæsilegar tæklingar í kvöld sem bjargaði e.t.v. marki eða mörkum. „Ég lifi fyrir þær. Sumir vilja skora en tæklingar sem bjarga leikjum, það er fyrir mig. Ég tek góða tæklingu fram yfir mark allan daginn.“

Fjölmargir Framarar lögðu leið sína í Garðabæinn í kvöld og er stemningin góð í Úlfarsárdal um þessar mundir. „Það fylgdi mikil spenna með Rúnari og úrslitin hjálpa til. Þegar við fáum góða veðrið mun þetta vera mjög skemmtileg sumar í Úlfarsárdal,“ sagði McLagan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert