Kaupverðið á 365 6,4 milljarðar

Merki 365 miðla.
Merki 365 miðla.

Rauðsól ehf. greiðir allt að 6.400 m.kr. fyrir 365 miðla ehf. og er kaupverðið greitt með reiðufé að fjárhæð 1.500 m.kr., auk þess sem Rauðsól ehf. yfirtekur allt að 4.900 m.kr. af skuldum 365 hf. Reiðufénu verður varið til greiðslu á skuldabréfaflokki að fjárhæð 1.450 m.kr. sem er á gjalddaga 5. nóvember nk.

Stjórn 365 hf. samþykkti á fundi sínum þann 1. nóvember sl. tilboð  Rauðsólar ehf., í alla hluti í 365 miðlum ehf., dótturfélags 365 hf.  Jón Ásgeir Jóhannesson fer fyrir Rauðsól, en hluthöfum 365 hf. sem áhuga hafa gefst kostur á að taka þátt í kaupunum, samkvæmt tilkynningu frá 365.

Vaxtaberandi skuldir verða 3 milljarðar

Rekstrarhagnaður, EBITDA, 365 miðla ehf. fyrir árið 2008 er nú áætluð um 600 milljónir króna og er kaupverðið því rúmlega 10-föld EBITDA ársins 2008.  Áhrif sölunnar á 365 hf. verða þau að vaxtaberandi skuldir 365 hf. lækka um 6.400 m.kr. og verða rúmlega 3.000 m.kr. eftir söluna að teknu tilliti til breytinga sem gerðar verða á Senu ehf., þ.m.t. kaup á Skífunni er áætlað að EBITDA 365 hf. nemi ekki undir 400 m.kr. í meðalárferði og skuldir 365 hf. munu því eftir söluna vera sambærilegt hlutfall af EBITDA hagnaði eins og er hjá 365 miðlum, samkvæmt tilkynningu.

Á árinu 2007 velti Sena 2.700 m.kr. og nam EBITDA hagnaður rúmum 400 m.kr. 365 hf. á jafnframt 63% hlut í EFG ehf (Saga film og norræn félög í auglýsingaframleiðslu). EFG  tók til starfa í núverandi mynd 1. október í fyrra og er áætluð velta á árinu 2008 um þrír milljarðar króna.

„Varðandi samkomulag 365 og Árvakurs hf. um kaup Árvakurs á Fréttablaðinu og Pósthúsinu skal tekið fram að eigendabreytingar á 365 miðlum hafa engin áhrif á það mál. Þessar einingar eru í dag hluti af fjölmiðlastarfsemi 365 og öll réttindi og skyldur vegna þess samnings við Árvakur fylgja 365 miðlum. Sá samningur verður hins vegar ekki virkur fyrr en Samkeppniseftirlitið hefur samþykkt hann og því veltur framhald málsins á niðurstöðu þess," að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá 365.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK