Að flytja á Álftanes var skrifað í skýin

Hermann og Dóra Birna í nýrri íbúð sinni á Álftanesi. …
Hermann og Dóra Birna í nýrri íbúð sinni á Álftanesi. Kaffipása í flutningatörninni var góð, því ætíð hressir sopinn er gjarnan sagt. mbl.is/Sigurður Bogi

Talsverður hópur fólks úr Grindavík hefur sett sig niður á Álftanesi. Þar hafa verktakar í talsverðum mæli byggt íbúðir sem voru komnar á söluskrá – og voru fljótar að seljast. „Álftanes, þetta úthverfi Garðabæjar, er kannski ekki svo ýkja ólíkt Grindavík þegar allt kemur til alls. Að minnsta kosti virðist það henta okkur vel, svona við allra fyrstu kynni,“ segir Grindvíkingurinn Hermann Þ. Waldorff. Í gær voru þau Dóra Birna Jónsdóttir kona hans að koma sér fyrir í íbúð í fjölbýlishúsi við Lambamýri.

Tekið upp úr kössum og hlutum valinn staður

Hermann nefnir að á síðustu árum hafi sunnudagsbíltúrar fjölskyldunnar stundum verið á Álftanesið, enda sé sundlaugin þar í uppáhaldi meðal barnabarnanna. „Álfanesið er eins og sveit í borginni. Einhverju sinni sagði ég við konuna að ef til þess kæmi að við þyrftum að yfirgefa Grindavík væri þetta kannski staður fyrir okkur. Á þorrablóti Grindvíkinga sem haldið var í vetur fengum við svo í vinning næturgistingu á gistiheimili hér á Álftanesi. Tilviljanirnar eru fleiri og þegar litið er til baka og hlutirnir skoðaðir í samhengi var kannski skrifað í skýin að hingað ætti leið okkar að liggja,“ segir Hermann – nú þegar sér fyrir endann á sex mánaða vist fjölskyldunnar í sumarhúsi í Kjós.

Og nú er verkefnið að taka upp úr kössum og velja hlutum sinn stað. Raða í skápa og hillur, setja borð og stóla á góðan stað, hengja myndir á veggi og svo framvegis. En kannski fyrst og síðast að skapa notalegan anda. Og það sakar ekki að í íbúðinni er ágætt útsýni til Keilis og fleiri fjalla á Reykjanesskaganum.

Hermann og Dóra Birna bjuggu til skamms tíma í nýlegu 200 fermetra einbýli við Skipastíg. Það hús eins og ótal fleiri í Grindavík hefur ríkið, undir merkjum Þórkötlu – húsnæðisfélags, leyst til sín og dugar andvirðið fyrir blokkaríbúðinni á Álfanesi sem er um 100 fermetrar.

Ríkið borgi út húsnæði fyrirtækja

„Auðvitað er sárt að þurfa að yfirgefa Grindavík,“ segir Hermann sem með Ingimar syni sínum hefur rekið litla fiskvinnslu; Pesca Iceland. Þar hafa þeir meðal annars verkað gellur, allt að 200 tonn á ári, sem seldar hafa verið á Evrópumarkaði. Starfsemi fyrirtækisins hefur verið nærri höfninni í Grindavík; á svæði sem nú er þversprungið og í vinnusluhúsið er ekki farið nema með ströngum skilyrðum og undir leiðsögn öryggissveita.

„Þegar rof verður í starfsemi fyrirtækis svo mánuðum skiptir glatast markaðir, svo einfalt er málið. Við væntum því þess að ríkið komi til móts við okkur og borgi út húsnæðið. Þannig gætum við byrjað á einhverju nýju og horft til framtíðar, sem skiptir svo miklu máli,“ segir Hermann sem er í hópi atvinnurekenda í Grindavík sem fundað hafa með stjórnvöldum um aðgerðir í þeirra þágu. Hafa í því skyni verið haldnir fundir með þingnefndum og ráðherrum þannig að mál eru í ferli.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert