„Ekki við hæfi að blanda sér í umræðu um ritstjórn RÚV“

Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.
Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, kallaði eftir viðbrögðum Lilju Daggar Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, um þá ákvörðun stjórnenda fréttaskýringaþáttarins Kveiks að víkja Maríu Sigrúnu  Hilmarsdóttur úr Kveiksteyminu.

Diljá spurði Lilju Dögg undir liðnum óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra á Alþingi í dag um skoðun ráðherra á málinu en innslag Maríu Sigrúnar um meinta gjafagjörninga Reykjavíkurborgar til olíufélaganna var ekki á dagskrá Kveiks en var síðar sýnt í Kastljósinu.

Umfjöllunin var sláandi

„Umfjöllunin var sláandi og landsmenn eiga heimtingu á að fá að sjá hvernig var staðið að þessum samningum. Talandi um lögbundið hlutverk RÚV vildi ég gjarnan fá fram skoðun ráðherra á þessu máli, ekki síst hvort hún telur að málið hafi skaðað trúverðugleika Ríkisútvarpsins,“ spurði Diljá Mist menningar- og viðskiptaráðherra.

Lilja Dögg sagði í svari sínu að henni finnist málið tengjast ritstjórnarlegu sjálfstæði Ríkisútvarpsins og telji ekki við að hæfi að ráðherra málaflokksins blandi sér í umræðu um dagskrárgerð eða ritstjórn fréttastofu RÚV.

Traust Ríkisútvarpsins býsna hátt

„Eins og þingmaður hefur líklega tekið eftir að þá er það svo að traust Ríkisútvarpsins er býsna hátt og hefur verið það í gegnum tíðina. Ég er ánægð með það og vona að þingið sé það líka,“ sagði Lilja Dögg meðal annars í svari sínu.

Hún segir að það sé gríðarlega mikilvægt að hér sé starfrækt öflug og fjölbreytt flóra fjölmiðla.

„Við höfum verið að styðja við einkarekna fjölmiðla og nú erum við að leggja lokahönd á fjölmiðlastefnu. Það er gríðarlega mikilvægt að hún komist til framkvæmda til að tryggja það að hér séu sterkir fjölmiðlar,“ sagði Lilja Dögg.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert