Saka MAST um að sinna ekki lögbundnu hlutverki sínu

Lamb fast í gaddavír.
Lamb fast í gaddavír. Ljósmynd/Steinunn Árnadóttir

Dýraverndarsamband Íslands sakar Matvælastofnun (MAST) um að sinna ekki lögbundnu hlutverki sínu um velferð dýra.

Í tilkynningu frá Dýraverndarsambandinu segir að ær á bænum Höfða í Borgarbyggð beri án eftirlits sem brýtur gegn reglugerð 1066/2014 um velferð sauðfjár og geitfjár. Þá hafi nýborin lömb fundist dauð við bæinn.

Hrönn Ólína Jörundsdóttir, forstjóri MAST, vísar þessum ásökunum á bug

Í samtali við mbl.is segir Hrönn að MAST sé með eftirlit með bænum vegna frávika sem hafi komið upp. Þá segir hún jafnframt að bærinn fái aðstoð við að bera út lömb, hreinsa lyf og þess háttar.

„Það að það séu dauð og deyjandi lömb þarna um allar jarðir er bara ekki rétt.“

Kannast ekki við að dýrin hafi verið látin þjást

Stjórn Dýraverndarsambandsins hafði samband við MAST og sakaði stofnunia um að sinna ekki lögbundnu hlutverki sínu. Eins hefur sambandið sent ábendingu þess efnis til umboðsmanns Alþingis.

Dýraverndarsambandið segist hafa áreiðanlegar og ítrekaðar heimildir fyrir því að dýrin hafi verið látin þjást árum saman. Hrönn segir hins vegar að hún viti ekki hvað Dýraverndarsambandið eigi við. Engin dýr hafi verið látin þjást.

Steinunn Árnadóttir dýraverndarsinni í Borgarnesi hefur reglulega birt myndir af ástandi veikburða skepna á Facebook-síðu sinni.

MAST einu sem geta brugðist við

Í samtali við mbl.is segir Anna Berg Samúelsdóttir stjórnarmaður Dýraverndarsambands Íslands að enginn geti brugðist við fyrir hönd skepnanna nema MAST. Þá vitnar hún í 38. gr lög um velferð dýra sem kveður á um að MAST hafi heimild til að fjarlæga skepnur af eigendum eða tilgreint annan umsjónaraðila á meðan rannsókn mála stendur yfir.

Mbl.is greindi frá því á mánudag að Linda Karen Gunnarsdóttir, formaður Dýraverndarasambands Íslands, hefði afhent Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra undirskriftir þar sem skorað er á stjórnvöld að bæta eftirlit dýra í landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert