Segja aðvörunarljós blikka í rekstri borgarinnar

Einar Þorsteinsson borgarstjóri og Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins.
Einar Þorsteinsson borgarstjóri og Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins. Samsett mynd

Ársreikningur borg­ar­inn­ar var lagður fyr­ir borg­ar­ráð í dag. Flokkur fólksins segir að þó bati hafi verið í rekstrinum blikki aðvörunarljós í rekstri borgarinnar, að því er kemur fram í bókun sem áheyrnafulltrúi flokksins lagði fram. 

Í bókuninni segir að „þrátt fyrir bata í rekstrinum sé engu að síður halli á rekstri A-hlutans sem nemur um 5 milljörðum sem ekki er ásættanlegt. Afkoma A-hlutans var afspyrnuslök og í raun hættulega léleg samkvæmt ársreikningi Reykjavíkurborgar á árinu 2022.“

Afborganir af lánum og skuldum tvöfaldast

„Rekstrartekjur A-hlutans hækka um 20 milljarða milli ára eftir því sem séð er. Þar vegur til að mynda töluvert að borgin lækkaði ekki álagningarhlutfall fasteignaskatts á móti mikilli hækkun á fasteignamati íbúðarhúsnæðis. Það er í sjálfu sér ekki mikil snilld að hækka skattheimtu á íbúana.“

Þá er vakin athygli á því að veltufjárhlutfall, hlutfall milli veltufjármuna og skammtímaskulda, lækkar úr 1,1 á árinu 2022 niður í 0,94 á árinu 2023.

„Veltufjármunir hækka um rúma tvo milljarða en skammtímaskuldir hækka um sex og hálfan milljarð. Hér blikkar rautt ljós. Er ekki markmiðið að veltuhlutfall sé alltaf um eða hærra en 1?  Fari það mikið undir 1 gefur það til kynna aukningu lausaskulda.

Í þessu sambandi vegur þó þyngst hækkun afborgana af langtímalánum og leiguskuldum. Þær hækka úr 6,2 milljörðum á árinu 2022 upp í 12,8 milljarða á árinu 2023 eða rúmlega tvöfaldast á milli ára.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert