Atli Þór ráðinn til Pírata

Atli Þór Fanndal.
Atli Þór Fanndal. Ljósmynd/Aðsend

Atli Þór Fanndal, fyrrverandi framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Transparency International, hefur verið ráðinn samskiptastjóri þingflokks Pírata.

„Við erum ótrúlega spennt að fá Atla aftur til liðs við okkur og njóta krafta hans,“ segir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata í tilefni ráðningarinnar.

„Við í þingflokknum höfum áður átt gott samstarf í aðdraganda þingkosninga 2017 og við stjórnarmyndunarviðræður sem eftir fylgdu og þekkjum því vel til þess hversu drífandi og atorkusamur hann er. Nú þegar kosningar nálgast á ný er mikill fengur að fá Atla til starfa sem samskiptastjóra þingflokksins.“

Atli starfaði áður fyrir Pírata um sex mánaða skeið árin 2017 og 2018, að því er segir í tilkynningu.

„Það kemur væntanlega engum á óvart að Píratar séu minn náttúrulegi flokkur,“ segir Atli Þór Fanndal, samskiptastjóri þingflokks Pírata. „Píratar standa alltaf mannréttindavaktina. Píratar eru augljóslega umhverfisflokkurinn á þingi og það sem skiptir mig mestu máli er að hér er flokkur sem er vænt um fólk. Ég hlakka auðvitað til þess að eiga þátt í því að almenningur fái hér nýja ríkisstjórn sem allra fyrst. Það finnst varla nokkur manneskja til á Íslandi lengur sem ekki er spennt fyrir því.“

Atli hefur víðtæka reynslu af fréttamennsku, verkefnastjórnun og ráðgjöf er varðar stefnumótun og stjórnmál. Atli hefur undanfarin ár starfað hjá Transparency International á Íslandi með fram störfum fyrir Space Iceland sem ráðgjafi fyrir fyrirtæki tengdum geimvísindum, rannsóknum og þróun. Hann starfaði áður sem blaðamaður meðal annars á DV, Reykjavík vikublaði og Kvennablaðinu auk BBC, The Telegraph, CBC og Der Freitag svo dæmi séu nefnd. 

Atli starfaði um tíma á skrifstofu Annette Brooke, þingkonu frjálslyndra demókrata í Mið-Dorset og Norður Poole í Bretlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert