Karlar voru tæp 83% allra ákærðra í fyrra

Litla Hraun. Mynd úr safni.
Litla Hraun. Mynd úr safni. mbl.is/Árni Sæberg

Alls sættu 2.332 einstaklingar og 23 fyrirtæki ákæru ákæruvaldsins hér á landi á síðasta ári, nokkru fleiri en á árinu 2022. Þar af voru 1.967 karlmenn eða 82,7%, 387 konur eða 16,3% og einn kynsegin.

Þetta kemur fram í ársskýrslu og tölfræði ákæruvaldsins fyrir árið 2023 sem embætti ríkissaksóknara hefur birt. Á yfirliti yfir ríkisfang þeirra sem sættu ákæru á árinu 2023 kemur fram að langflestir voru með íslenskt ríkisfang eða 1.639, mun fleiri en á árinu á undan þegar þeir voru um 1.500. Næstflestir eru frá Póllandi eða 203 sem sættu ákæru í fyrra, 75 frá Litháen, 59 frá Albaníu, 54 frá Rúmeníu, 52 frá Lettlandi og 35 frá Bandaríkjunum.

Kort/mbl.is

Skipt eftir aldri voru flestir þeirra sem sættu ákæru á síðasta ári á aldrinum 25 til 39 ára. 367 voru á aldrinum 30 til 34 ára, 348 á aldrinum 35 til 39 ára en 321 var 25 til 29 ára. Fæstir sem sættu ákæru voru 70 ára eða eldri eða 28 og þar af voru 25 karlar og þrjár konur. Nær fjórfalt fleiri sem sættu ákæru voru á sjötugsaldri (60-69 ára) eða 103 (95 karlar og átta konur). Sé hins vegar litið á yngsta aldurshópinn, 13 til 19 ára, kemur fram að 212 sem voru á þeim aldri sættu ákæru á árinu (176 karlar og 36 konur).

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert