Trúlofuðu sig á Landspítalanum eftir harðan árekstur

Þeir Elliot Griffiths og Zak Nelson ætluðu að aka um …
Þeir Elliot Griffiths og Zak Nelson ætluðu að aka um landið og njóta íslenskrar náttúru og sækja vinsæla ferðamannastaði heim. Myndin er úr safni. Ljósmynd/Colourbox

Breska parið Elliot Griffiths og Zak Nelson hafði ekki verið lengi á Íslandi þegar þeir lentu í hörðum árekstri á hringveginum 19. apríl.

Þeir Griffiths og Nelson voru fluttir á slysadeild í kjölfarið og þegar þeir hittust aftur á gjörgæsludeild Landspítalans ákváðu þeir að trúlofast.

Þeir Griffiths, sem er 26 ára, og Nelson, sem er 28 ára, segja sögu sína á vef breska ríkisútvarpsins.

Þeir voru á bílaleigubíl þegar þeir lentu í hörðum árekstri aðeins nokkrum klukkustundum eftir að hafa komið fyrst til Reykjavíkur.

Gleði á gjörgæslunni

Nelson segir í samtali við BBC að hvorugur þeirra hafi vitað að hinn væri á lífi eftir slysið. 

„Ég var fluttur að rúminu hans, og Elliot sá mig, sagði halló og bað mig um að giftast sér. Ég sagði já,“ segir Nelson.  

„Við spjölluðum saman í fimm mínútur og allir hjúkrunarfræðingarnir fögnuðu og sögðu: „þetta er fyrsta trúlofunin hér á gjörgæslunni“,“ bætti hann við. 

Enn á sjúkrahúsi

Griffiths varð síðan að gangast undir aðgerð vegna innvortis blæðinga og hann þarf að dvelja áfram á spítalanum á meðan hann er að jafna sig. Nelson var aftur á móti útskrifaður tveimur dögum eftir slysið. 

Nelson, sem marðist illa í árekstrinum, segir að bifreið, sem kom úr gagnstæðri átt, hafi farið yfir á öfugan vegarhelming og hafnað beint framan á bifreið þeirra á fullri ferð, en hann telur að þeir hafi verið á um 90 km hraða þegar slysið varð. 

Heppnir að vera á lífi

„Bíllinn valt og það næsta sem ég veit var að úrið mitt gaf frá sér viðvörun og hringdi í neyðarlínuna,“ segir Nelson í viðtalinu.

„Við erum heppnir að vera á lífi, þegar þú sérð myndina af bílnum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert