Fyrrum borgarstjóri sleginn í höfuðið

Franziska Giffey, fyrrum borgarstjóri Berlínar.
Franziska Giffey, fyrrum borgarstjóri Berlínar. AFP/Michele Tantussi

Lögreglan í Þýskalandi handtók í dag mann sem er grunaður um að hafa slegið fyrrum borgarstjóra Berlínar, Franziska Giffey, í höfuðið. AFP fréttastofa greinir frá.

Árásin átti sér stað þegar Giffey sat á bókasafni í gær. Maðurinn er sagður hafa komið aftan að henni og slegið hana í höfuð og háls með poka sem innihélt harða hluti. Giffey var færð á sjúkrahús til meðhöndlunar. Hún birti færslu á X í gær þar sem hún sagðist  líða vel, en hefur áhyggjur af vaxandi árásum á stjórnmálamenn í landinu. Það segir hún vera óásættanlegt.

Franziska Giffey er nú efnahagsráðherra Berlínar og er meðlimur í Jafnaðarmannaflokki Olafs Scholz, kanslara Þýskalands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert