Eltihrellirinn úr Baby Reindeer: „Ég er fórnarlambið“

Jessica Gunning leikur eltihrellinn Mörthu í þáttunum sem eru byggðir …
Jessica Gunning leikur eltihrellinn Mörthu í þáttunum sem eru byggðir á sannsögulegum atburðum. Samsett mynd/Netflix

„Ég er fórnarlambið. Hann hefur skrifað andskotans þætti um mig,“ segir meintur eltihrellir Jonathan Gadd, aðalleikara og handritshöfundar Netflix-þáttanna Baby Reindeer.

Í samtali við breska miðilinn Daily Mail kveðst konan hafa fengið líflátshótanir vegna þáttanna og að hún íhugi að leita réttar síns.

Þættirnir hafa notið mikilla vinsælda á streymisveitunni og hafa hlotið meira en 13 milljón áhorf á tveimur vikum og frábæra dóma.

Sendi yfir 41.000 tölvupósta á fjórum árum

Gadd segir þættina sannsögulega og vera byggða á reynslu hans af kvenkyns eltihrelli sem varð hugfanginn af honum eftir að hann aumkaði sig yfir hana og gaf henni ókeypis tebolla. Er nafn þáttanna dregið af gælunafninu sem Martha gaf aðalsögupersónunni, Donny, sem Gadd leikur sjálfur. 

Segir Gadd eltihrellinn hafa sent sér 41.071 tölvupóst, 350 klukkustundir af talskilaboðum, skrifað um hann 744 tíst, sent honum 46 Facebook-skilaboð og 106 síður af bréfum, yfir fjögurra og hálfs árs tímabil.

Lögreglan hafi aftur á móti  ekki tekið málið alvarlega þar sem hann væri karlmaður en eltihrellirinn kvenkyns.

Biðlaði til áhorfenda að leita ekki að eltihrellinum

Í þáttunum er Martha kona á fimmtugsaldri og kemur snemma í ljós að hún er ekki öll þar sem hún er séð. Kveðst hún til að mynda ítrekað vera háttsettur lögmaður þrátt fyrir að eiga ekki fyrir tebollanum og aldrei þurfa að fara í vinnuna og kemst Donny fljótt að því, þegar Martha fær hann á heilann, að hún hefur áður gerst sek um slíkt.

Hefur Gadd sagt í viðtölum að hann hafi breytt karakter eltihrellisins nóg til að aðdáendur þáttarins gætu ekki rekið slóðina til hins raunverulega eltihrellis og biðlað til áhorfenda að leita hvorki hana né aðrar persónur í þáttunum uppi.

„Ég held hún myndi ekki þekkja sjálfa sig,“ sagði Gadd en svo virðist sem hann hafi vanmetið mátt og forvitni netverja og slúðurmiðla sem telja sig nú hafa fundið hina raunverulegu Mörthu. 

Augljóslega ekki breytt karakternum nóg 

Hefur Daily Mail tekið ákvörðun um að nafngreina ekki konuna sem á í hlut en birti engu að síður viðtal sitt við hana. Segir hún Gadd í raun hrella sig með þáttunum og telur sig vera hið raunverulega fórnarlamb þar sem honum hafi augljóslega ekki gengið nógu vel að breyta persónueinkennum hennar. 

Til að mynda sé sögupersónan Martha, sem er leikin af Jessicu Gunning, einnig skosk, lögfræðimenntuð, tuttugu árum eldri en Gadd og eigi sér sögu að baki sem eltihrellir. 

Segir Daily Mail að fleiri líkindi séu á milli Mörthu og viðmælenda þeirra sem er 58 ára gömul kona búsett í félagsíbúð í miðborg Lundúna og lifi á 30 pundum á viku eða um 5.300 krónum. Eru ytri líkindi á milli þeirra einnig óneitanleg og kveðst konan sjálf sjá það. 

„Hún lítur pínu út eins og ég eftir að ég bætti á mig á meðan á samkomutakmörkunum stóð. En ég er samt ekki óaðlaðandi.“

Áreitti fatlað barn stjórnmálamanns

Má einnig geta þess að í þáttununum hafði Martha þegar gerst sek um að hrella fólk og kemst sögupersóna Gadd að því þegar hann leitar hana uppi á Google. Blasir fyrirsögnin Sjúkur eltihrellir áreitir heyrnalaust barn lögmanns við honum en fyrirsögnin er keimlík máli konunnar sem Daily Mail ræðir við. 

Í hennar tilfelli hafði hún fengið starfsnámsstöðu á lögmannsstofu en lögmaðurinn sem um ræðir var eiginkona stjórnmálamanns í Bretlandi. Var konunni vikið úr starfi innan nokkurra daga eftir að lögmaðurinn tók eftir furðulegri hegðun hennar. Gerðist konan í kjölfarið svo ágeng að starfsmenn lögmannsstofunnar voru búnir neyðarhnöppum.

Hóf hún einnig að senda kvartanir og ábendingar til barnaverndaryfirvalda um meðferð lögmannsins og stjórnmálamannsins á fötluðu barni þeirra sem leiddi til þess að yfirvöld rannsökuðu ábendingarnar. 

Er rannsóknin leiddi í ljós að um væri að ræða falskar ásakanir tókst hjónunum að fá nálgunarbann á konuna, líkt og Gadd tókst einnig að lokum. 

Segir konan þó ýmsar staðreyndarvillur í þáttunum en innt eftir dæmi um slíkt kveðst hún ekki kannast við að hafa kallað Gadd „Baby Reindeer“ líkt og Martha gerir ítrekað í þáttunum. 

Ekki sú eina sem hefur orðið fyrir áreiti

Viðmælandi Daily Mail er ekki sú eina sem hefur orðið fyrir áreiti áhorfenda en tveir karlmenn, leikstjóri og grínisti, hafa verið leitaðir uppi af aðdáendum þáttaraðanna sem telja annan þeirra vera framleiðanda sem nauðgaði Gadd á hans yngri árum, en Tom Goodman-Hill leikur framleiðandann í þáttunum.

Hefur lögreglan varað fólk við því að hafa samband við fólk sem það telji persónur þáttana byggja á og segir annar mannanna að lögreglan skoði nú allar hótanir og meiðandi ummæli í garð hans. 

Hefur Gadd enn og aftur biðlað til fólks að reyna ekki að komast að því á hvaða fólki er byggt í raunheimum. 

„Það er ekki það sem þættirnir eiga að snúast um.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú hefur legið í dvala allt of lengi svo nú er komið að því að láta hendur standa fram úr ermum. Gefðu þér tíma til að sinna ungum sem öldnum í fjölskyldunni.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lucinda Riley og Lucinda Riely
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Lotta Luxenburg
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú hefur legið í dvala allt of lengi svo nú er komið að því að láta hendur standa fram úr ermum. Gefðu þér tíma til að sinna ungum sem öldnum í fjölskyldunni.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lucinda Riley og Lucinda Riely
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Lotta Luxenburg