sun. 5. maí 2024 07:30
Hundurinn Theódór Virgill F. Alexander-Arnold er bráðfyndinn og skemmtilegur karakter.
„Hann rífst við mig eins og unglingur á hverjum degi“

Apríl Mist Fjelsted er 24 ára nemi við arkitektúrsdeild í Listaháskóla Íslands. Á síðasta ári kom Enski Bolabíturinn Theódór Virgill F. Alexander-Arnold, oftast kallaður Dóri, inn í líf hennar alla leið frá Bretlandi, en hann er í dag orðinn 18 mánaða gamall og er bráðfyndinn og skemmtilegur karakter. 

„Ég er frekar hvatvís og enn smá unglingur, en Dóri hefur látið mig þurfa að fullorðnast smá eftir að ég tók við „móðurhlutverkinu“. Dóri á einn bróður sem er salamandran Igor og við búum öll saman í miðbæ Reykjavíkur,“ segir Apríl.

„Ég tala alltaf um að Dóri hafi verið borinn af staðgöngumóður en ég álít hann sem son minn. Hann er óþolandi vinsæll í göngutúrum og ég má varla fara út með hann án þess að vera stoppuð reglulega. Túristar elska líka að fá hann til að pósa fyrir myndavélina, enda vaxinn eins og fyrirsæta hjá Vogue,“ bætir hún við. 

 

Hvernig lágu leiðir ykkar saman?

„Ég var hluti af ansi mörgum Facebook-síðum sem snúast í kringum þessa tegund og í skammdegisþunglyndi desembermánaðar árið 2022 fann ég hann og ákvað að ég þyrfti hann. Hann hét þá Bertie og var lofaður fyrst en það gekk ekki upp ... sem betur fer fyrir mig. Eina vandamálið var að hann var í Bretlandi. Ég fór því í svaka ferli við að koma honum til landsins og Helga hjá Mast fær miklar þakkir frá mér fyrir hjálpina.“

 

Hvað var það sem heillaði þig við tegundina?

„Ég ólst upp með þessari tegund og það er allt við hana sem heillar mig. Þessi dýr eru með svo mannlegan persónuleika og þrjóskan er þar mest ríkjandi. Þetta er ótrúlega klár tegund en hana langar ekkert alltaf að hlusta eða hlýða. Skemmtilegast finnst mér þegar þeir fara í heljarinnar fýlu ef þeir fá ekki sínu framgengt og neita að horfa á mann. Þeir sofa líka endalaust sem er mjög kærkomið fyrir eina svefnsjúka konu.“

 

Áttir þú gæludýr þegar þú varst yngri?

„Ég eignaðist tík sem var Enskur Bolabítur þegar ég var 12 ára sem fylgdi mér í nærri níu ár. Við vorum bestu vinkonur og hún tók algjörlega upp minn persónuleika, þ.e. frek og löt en ótrúlega fyndin. Hún eignaðist hvolp árið 2015 sem átti að selja en það tókst ekki því hann náði heljartaki á fjölskyldunni minni og enginn gat sleppt honum. Ég átti líka hamstra en ég ætla ekki út í þá tragedíu.“

 

Hverjir eru kostirnir við að eiga hund?

„Ég bý ein þannig þetta er rosalega mikill félagsskapur fyrir mig og einnig nauðsyn fyrir mig til að bera ábyrgð á einhverjum öðrum en sjálfri mér sem er mjög þroskandi. Annars er þetta líka bara besti vinur minn og ég þarf varla að fara út í kosti þess að eiga slíkan.“

 

En ókostirnir?

„Þeir eru svo litlir í stóra samhenginu að ég læt þá ekki trufla mig en ef ég þyrfti að nefna þá er það elsku óþrifnaðurinn sem fylgir svona slefandi dýri. Hann málar veggina mína með slefinu sínu og öll fötin mín. Hann prumpar líka ólöglegri lykt sem mengar alla íbúðina, við erum að tala um fimm metra radíus af prumpufýlu. En það getur verið þægilegt því ef ég prumpa í kringum aðra þá get ég kennt honum um.“

 

Hver er ykkar daglega rútína?

„Við vöknum eftir þörfum og hann fer beint út í garð. Stundum er hann vekjaraklukkan mín sem er ekkert sérstaklega vel þegið en ég tek því. Svo horfir hann áhugasamur á mig gera mig til áður en ég fer í skólann. Ég kveiki stundum á Lion King fyrir hann en hann sefur yfirleitt, blessunarlega, á meðan ég er í skólanum.“

 

„Þegar ég kem heim þá er þetta bara mikið hangs, þessi tegund er svo löt að bara það að kasta bolta í fimm mínútur rotar hann í tvo tíma. Svo tökum við alltaf góðan göngutúr fyrir svefninn. Hann elskar að labba Laugaveginn því þar er athyglin.“

 

Hafið þið deilt einhverjum eftirminnilegum lífsreyslum eða skemmtilegum minningum?

„Þegar ég sótti hann til Bretlands þá ferðuðumst við saman í lest frá Manchester til London og þaðan tók við ótrúlega áhugaverð ferð upp á hótel. Ég semsagt ákvað að kaupa stærsta búr sem Icelandair leyfir í hvatvísi minni en reiknaði ekki með að ég þyrfti að burðast með það í ein í London.“

 

„Eftir hálftíma að reyna að komast niður í neðanjarðar lestina fattaði ég, þegar ég var hálfnuð niður, að lyftan gekk ekki alla leið og við tók annar hálftími að koma okkur aftur upp á jarðhæðina. Það eina sem var í stöðunni þá var að panta Uber og hann stoppaði lengst í burtu og á leið minni þangað brotnaði eitt hjólið undan búrinu. Þá var það þrjóskan ein sem kom mér áfram. En allt gekk þetta upp og flugum við heim til Íslands næsta dag. Hann var sultuslakur allan tímann sem betur fer og lifði eins og konungur í einangruninni, en hann útskrifaðist þaðan í ofþyngd.“

 

Er hundurinn með einhverjar sérþarfir eða sérviskur?

„Endalaust. Hann rífst við mig eins og unglingur á hverjum degi. Hann ybbar gogg á móti og alveg reynir allt til að vinna mig í rifrildum. Daglegu rifrildin eru að hann vill ekki fara inn í íbúð af ganginum en ég minni hann svo á það að ég hef líkamlega yfirburði og ég lyfti honum þá bara ef hann ætlar ekki sjálfviljugur inn.“

 

„Hann er líka ótrúlega móðursjúkur og ég má varla svara í símann án þess að hann taki frekjukast því þá beinist athyglin ekki að honum. Hann tekur líka reglulega upp a því að henda símanum úr höndunum mínum eða loka tölvunni minni því hann langar í athygli. En hann er líka fyndnasti vinur minn og hlátursköstin eru ófá með honum.“

 

Hvernig gengur að skipuleggja frí með dýr á heimilinu?

„Hann er svo vinsæll að ég fæ alltaf pössun frá vinum og fjölskyldu og amma hans og afi eru mjög dugleg að taka hann.“

 

Ertu með einhver góð ráð til annarra gæludýraeigenda?

„Veljið tegund sem hentar ykkar lífi og persónuleika. Þetta á ekki að vera kvöl heldur kærkomin viðbót í líf manns.“

 

til baka