fim. 16. maí 2024 15:27
Keflavíkurflugvöllur bauð kanadíska flugfélagið WestJet velkomið í flugvallarsamfélagið á vellinum.
Beint flug hafið milli Calgary og Íslands

Það var tekið vel á móti kanadíska flugfélaginu WestJet á Keflavíkurflugvelli í dag þegar það fór í sínar fyrstu ferðir milli Calgary í Albertafylki og Keflavíkur. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Keflavíkurflugvelli. 

„Við erum afskaplega ánægð með að geta bætt Íslandi við sem nýjum beinum áfangastað okkar í Evrópu,“ segir Angela Avery, framkvæmdastjóri hjá WestJet, og bætir við að áfangastaðurinn Ísland bjóði upp á landslag sem væri hrífandi og jarðfræðilega fjölbreytt. Þá bendir hún einnig á að WestJet væri eina flugfélagið sem tengdi Ísland við Calgary. 

Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, segist hlakka til samstarfsins við WestJet sem yrði mikilvægur samstarfsaðili flugvallarins til framtíðar. „Sú ákvörðun WestJet að hefja þetta áætlunarflug styður við þá framtíðarsýn okkar að tengja heiminn í gegnum Ísland.“

Fyrsta fluginu var fagnað í morgun og klipptu forstjóri Isavia og framkvæmdastjóri frá WestJet á borða áður en flogið var frá Keflavíkurflugvelli.

 

„Meira en bara tenging milli tveggja borga“

WestJet flýgur á Boeing 737MAX vél milli Calgary og Keflavíkurflugvallar fjórum sinnum í viku fram í miðjan október næstkomandi.

„Þessi nýja flugleið er meira en bara tenging milli tveggja borga, þetta snýst um að viðurkenna gagnkvæma skuldbindingu við alþjóðlegar tengingar,“ segir Chris Dinsdale, forstjóri og stjórnarformaður hjá alþjóðaflugvellinum í Calgary.

„Við á Keflavíkurflugvelli tökum fagnandi á móti nýjum vinum okkar hjá kanadíska flugfélaginu WestJet,“ segir Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar á Keflavíkurflugvelli. „Við hlökkum mikið til að fá félagið sem nýja viðbót í flugvallarsamfélagið á Keflavíkurflugvelli. WestJet hefur, með því að velja Ísland sem nýjan áfangastað, sýnt að það hefur trú á því að farþegar haldi áfram að vilja upplifa það sem náttúran hefur upp á að bjóða hér í Norðri. Ferðalöngum WestJet verður tekið með opnum örmum. Þá veit ég að Íslendingar eiga eftir að velja Calgary sem nýjan og spennandi áfangstað þar sem njóta má alls sem borgin og Albertafylki hafa upp á að bjóða. WestJet verður sterkur samtarfsaðili til framtíðar og mikilvæg viðbót á Keflavíkurflugvelli.“

Í tilkynningu frá WestJet kemur fram að félagið hafi gert samning við Icelandair þess efnis að farþegar kanadíska flugfélagsins geti bókað sig áfram á einum flugmiða frá Calgary í gegnum Keflavíkurflugvöll áfram til áfangastaða Icelandair í Evrópu. Það sama sé í boði fyrir farþega sem fljúgi frá Keflavík til Calgary sem geti farið áfram til annarra áfangastaða WestJet víða um heim.

til baka