mið. 15. maí 2024 20:29
Joe Biden og Donald Trump mætast í kappræðum 27. júní.
Trump og Biden mætast í kappræðum um mitt sumar

Joe Biden Bandaríkjaforseti og Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, munu mætast í kappræðum sjónvarpsstöðvarinnar CNN þann 27. júní.

Venjulega eru forsetakappræður haldnar í september og október og verða þær því óvenju snemma. Kosningarnar sjálfar verða 5. nóvember.

CNN greinir frá.

Donald Trump hefur í dágóðan tíma skorað Joe Biden á hólm í kappræðum og nýlega sagði Biden í útvarpsþætti hjá Howard Stern að hann væri til í að mæta Donald Trump í kappræðum.

Í morgun birti Joe Biden myndband þar sem hann skoraði formlega á Trump að mæta sér í kappræðum og svaraði Trump kallinu um hæl á samfélagsmiðlum.

https://www.mbl.is/frettir/erlent/2024/04/26/biden_svarar_kalli_trumps/

https://www.mbl.is/frettir/erlent/2024/05/15/myndskeid_biden_skorar_a_trump/

Engir áhorfendur

Í umfjöllun CNN kemur fram að kappræðurnar verði haldnar án áhorfenda sem hefur ekki gerst síðan þeir John F. Kennedy og Richard Nixon mættust í kappræðum fyrir forsetakosningarnar árið 1976.

Það voru einnig fyrstu forsetakappræðurnar sem sjónvarpað var.

Kosningateymi Joe Biden hefur lagt til að haldnar verði tvær kappræður, í júní og í september. Trump sagði á samfélagsmiðlum í dag að hann væri til í enn fleiri kappræður en framboðsteymi beggja manna hafa á undanförnum vikum rætt sín á milli um hvenær kappræðurnar ættu að vera haldnar.

Tímasetningin hefur vakið athygli en útskýrist meðal annars af því að mun fleiri kjósa nú snemma utan kjörfundar en tíðkast hefur áður.

til baka