mið. 15. maí 2024 12:56
Einn af þeim fyrstu í Noregi í ár. Fallegur tíu kílóa fiskur sem Mathis Philipp landaði eldsnemma í morgun.
Minnkandi bjartsýni meðal veiðimanna

Laxveiðin er hafin í Noregi og er þá byrjuð í öllum löndum í kringum okkur. Fyrstu íslensku laxarnir eru byrjaðir að þefa við árósa og í næstu viku er ekki ólíklegt að fregnir berist af þeim fyrstu í ferskvatni. 1. júní er opnunardagur í Urriðafossi í Þjórsá og ef að líkum lætur verður þeim fyrsta landað þar um morguninn.

Fyrstu myndir af stórlöxum frá Noregi birtust á samfélagsmiðlum í morgun og vonandi veit það á gott en síðasta var það lélegasta í Noregi frá upphafi í fiskum talið.

Í ár þurfa menn ekki að hafa áhyggjur af hnúðlaxinum sem í sífellt meira mæli gengur upp í ár við Atlantshafið. Eins og flestir vita þá kemur hann annað hvert ár og eru það oddatölu árin sem hann gengur í ferskvatn eftir tveggja ára dvöl í sjó. Raunar er til annar stofn hnúðlaxa sem gengur í ferskvatn á þeim árum sem bera upp á slétta tölu en sá stofn hefur ekki náð sér á strik.

Sænskir veiðimenn eru líka farnir að fá hann en eins og í Noregi var veiðin þar í fyrra í sögulegu lágmarki. Flestar ár í Svíþjóð eru heimkynni Eystrasaltslaxins og verða þeir oft stærri en hinn sá er heldur til fæðuöflunar í Atlantshafinu.

 

 

Danskir veiðimenn hafa líka verið að setja í og landa fyrstu löxunum í maí. Þannig hafa sést myndir af hinum stórvöxnu Skjern löxum upp á síðkastið.

Án þess að það sé staðfest þá virðist byrjunin í Skotlandi vera betri en nokkur undanfarin ár. Fiskurinn virðist vel haldinn og byrjunin lofar góðu.

Upptaktur að veiðisumri

Í fyrramálið er Hafrannsóknastofnun með athyglisverðan morgunfund þar sem farið verður yfir horfur í laxveiðinni hér heima í sumar. Þar eru menn ekki að horfa í kristalkúlu miklu fremur að horfa til þeirra staðreynda sem rannsóknir og gagnaraðir segja til um. Samt sem áður þarf alltaf að túlka þær tölur og upplýsingar. Fundurinn ber heitið Upptaktur að 

Sporðaköst hafa heyrt í fjölmörgum veiðimönnum síðustu vikurnar og mánuðina. Vissulega er bjartsýni til staðar en hún er minni en oft áður. Líklegasta skýringin er að menn eru barðir eftir mörg rýr laxveiðitímabil. Þá birtist minnkandi bjartsýni einnig í þeirri staðreynd að sala veiðileyfa hefur gengið mun verr fyrir þetta veiðitímabil en mörg undanfarin ár og aflsáttur er víða í boði. Verðhækkanir og minni veiði er ekki góð blanda og það virðist vera að koma á daginn núna. 

Ef við horfum til þess sem við vitum þá var frekar lítið af smálaxi í fyrra. Það ætti að vera vísbending um frekar rólega veiði framan af og minna af stórlaxi. Góðar líkur ættu að vera á betra smálaxaári en undanfarin tímabil. Þar horfa menn einkum til hitatalna í júlí í fyrra á fæðuslóð seiða suðvestur af landinu. Í aðdraganda sumars eru spurningarnar alltaf fleiri en svörin.

 

 

 

 

 

til baka