fös. 17. maí 2024 08:00
George Laing gerir upp hús á Sikiley sem hann keypti fyrir eina evru.
Keypti hús á Sikiley á eina evru

Ungur maður ákvað að freista gæfunnar og keypti ódýrt hús á Ítalíu sem hann ætlar að gera upp.

„Afi minn var virtur geðlæknir, RD Laing, frábær náungi en hann drakk öll auðævi fjölskyldunnar í burtu. Hann skildi fjölskylduna eftir slyppa og snauða. Foreldrar mínir færðu miklar fórnir til þess að tryggja að ég gæti gengið í einkaskóla. Nú er ég að kaupa upp ódýrar fasteignir á Ítalíu til að reyna að vinna til baka eitthvað af fjölskylduauðævunum,“ segir George Laing í viðtali við The Times. 

„Frá unga aldri hef ég verið í einhverju sölubraski og nú er ég með ýmis fyrirtæki sem snúa að sölu. Ég til dæmis kaupi og sel antíkmuni og á nokkur fyrirtæki.“

„Mig langaði að kaupa mér heimili en íbúðirnar í London eru afar dýrar. Ég fór því að leita að fasteignum sem væru í ódýrari kantinum. Ég rakst þá á lítinn smábæ á Sikiley sem stóð fyrir einnar evru framtakinu. Ég keypti samstundis flugmiða og fór þangað.“

Keypti fyrsta húsið sem hann skoðaði

„Ég keypti fyrsta húsið sem ég skoðaði. Það er númer 11 sem er happatalan mín og er gull fallegt. Þetta átti að verða.“

„Það er hvorki rafmagn né rennandi vatn en það er á þremur hæðum með nóg pláss og upprunalegum marmarastiga. Kjallarinn er fullur af gömlum vínflöskum, skartgripum og gömlum klæðnaði. Það var svo margt til í húsinu að ég hef selt það á uppboðum og næ að fjármagna að einhverju leyti enduruppbygginguna með ágóðanum.“

„Ferlið sjálft tók um sex mánuði, frá því að ég skoðaði fyrst húsið og þar til ég fékk lyklana í hendurnar. Einu skilyrðin eru að maður þarf að gera upp húsið á þremur árum annars fær maður sekt.“

Gerir allt sjálfur

„Stærsti kostnaðarliðurinn er flugmiðar og hótel. Ég reyni að gera allt sjálfur til þess að spara aðkeypt vinnuafl. Ég legg rafmagn, uppfæri pípulagningar, baðherbergið, eldhúsið og mála veggina. Ég hef aldrei gert neitt slíkt áður en ég er duglegur að horfa á Youtube-myndbönd og fer á námskeið í rafmagns- og pípulögnum. Ég vinn sjö daga vikunnar og sef varla neitt. Ég hef svo mikla orku.“

„Markmiðið er að læra eins mikið og ég get til þess að ég hafi djúpa þekkingu á ferlinu næst þegar ég geri upp hús. Þá veit ég hvað fagmenn eiga að vera að gera.“

„Ég fer alltaf í húsið einu sinni í mánuði og er þar í fimm til tíu daga. Ég flýg til Palermo og tek svo lest til Acquaviva-Casteltermini, þaðan er 10 km ganga upp brekku. Það tekur um tvo og hálfan tíma. Gangan er besti parturinn því útsýnið er dásamlegt.“

Fólkið á Sikiley er frábært

„Það sem ég elska mest við Sikiley er fólkið. Allir vilja spjalla við mann sem er ólíkt því sem maður á að venjast í London, þar sem allir eru á þönum.“

„Húsið verður tilbúið eftir sex mánuði. Ég veit ekki hvað ég geri, hvort ég leigi það út eða sel það. Ég ætla að minnsta kosti að halda áfram að kaupa ódýrar fasteignir. Mig langar að skapa auð fyrir fjölskyldu mína, skilja eitthvað eftir. Eitthvað sem afi minn gleymdi að gera.“

View this post on Instagram

A post shared by George Laing (@george_laing_)

 

til baka